Líf og fjör í Hálsaskógi
- LK frumsýnir barnaleikrit sem er líka fyrir fullorðna
Hið klassíska barnaleikrit Dýrin í Hálsaskógi eftir Thorbjorn Egner er nýjasta verkefni Leikfélags Keflavíkur sem að þessu sinni ákvað að finna barnið í sér og leitaði því til barnalegasta leikstjóra landsins að eigin sögn, Gunnars Helgasonar.
Æfingar hafa staðið yfir undanfarnar vikur en alls taka 24 leikarar þátt í sýningunni fyrir utan þá sem eru bak við tjöldin. Sviðsmynd Davíðs Arnar Óskarssonar formanns félagsins klikkar sjaldan og notar hann hugvitsamlega rýmið á sviðinu, við erum stödd í Hálsaskógi. þá var vel til fundið að hafa lifandi undirleik sem var í öruggum höndum Guðmundar Hermannssonar, ég hefði þó alveg viljað sjá meira í hann á sviðinu.
Hálsaskógur geymir héra og mýs, birni, íkorna, uglu og broddgölt svo eitthvað sé nefnt og þar eru heimkynni Lilla klifurmúsar sem leikinn er af Sigurði Smára Hanssyni og Mikka refs sem leikinn er af Guðlaugi Ómari Guðmunssyni. Þeir félagar fara á kostum í hlutverkum sínum eins og svo margir en mikið mæðir á þeim. Kemur sér vel að báðir eru góðir söngmenn og leika á hin ýmsu hljóðfæri. Mikki refur er óhugnanlegur en líka aumkunarverður enda lítið gaman að vera vegan í skógi fullum af gómsætum dýrum. Lilli klifurmús minnir á hégómalega poppstjörnu í hlutverki sínu og kitlar auðveldlega hláturtaugarnar og gaman var að sjá hvað leikarar náðu vel til salsins en segja má að salurinn hafi jafnframt átt leiksigur en börnin tóku óhrædd þátt.
Leikgleðin er áberandi í sýningunni og gaman að sjá útfærslu leikhópsins og leikstjóra á þessu þekkta verki þar sem leikarar fá að bæta við það frá eigin brjósti.
Það má segja að gamanleikur sé styrkleiki leikfélagsins og þar eru það reynsluboltarnir Halla Karen Guðjónsdóttir og Arnar Ingi Tryggvason sem halda vel utan um taumana sem bangsapabbi og Marteinn skógarmús. Þá verð ég að nefna Héraðsstubb bakara sem einhvern vegin sprengdi húmorskalann í túlkun Huldu Bjarkar Stefánsdóttur. Þá koma yngri leikarar og jafnvel óreyndir ekki síður á óvart og gaman er að sjá kynslóðaskipti á sviðinu, greinilegt að leiklistarbakterían gengur í ættir. Þá hefur það örugglega sitt að segja að hópurinn á bak við félagið er þéttur og þar hjálpast allir að, svona líkt og í Hálsaskógi.
Ég þakka Leikfélagi Keflavíkur kærlega fyrir stórkostlega skemmtun í gær og hvet sem flesta til þess að mæta á sýninguna. Það skal tekið sérstaklega fram að sýningin er ekki síður fyrir fullorðna sem er að mínu mati aðalsmerki góðra barnasýninga.
Dagný Maggýjar
Stoltar mæður á frumsýningu, Anna Margrét Ólafsdóttir og Kristín Ósk Wium Hjartardóttir
Ösp Birgisdóttir, Júlíus Guðmundsson og Rúnar Hannah.
Ungur frumsýningargestur