Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Líf og fjör á Bókasafni Reykjanesbæjar
Mánudagur 16. apríl 2012 kl. 16:04

Líf og fjör á Bókasafni Reykjanesbæjar



Það verður líf og fjör á Bókasafni Reykjanesbæjar í tilefni af Bókasafnsdeginum 17. apríl. Gestum gefst kostur á að hlýða á upplestur sigurvegara Stóru upplestrarkeppninnar í ár á ljóðum Suðurnesjaskálda, taka þátt í ritun smásögu, velja uppáhaldsbókina sína og hlýða á tónlistaratriði með táknmáli frá Holtaskóla. Lánþegi ársins fær viðurkenningu.

Bókasafnsdagurinn verður haldinn hátíðlegur í annað sinn á morgun, þriðjudaginn 17. apríl, nú undir yfirskriftinni Lestur er bestur. Það er Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða sem heldur utan um sameiginlega dagskrá bókasafnanna í landinu. Að þeirra frumkvæði var ljósmyndasamkeppni hrundið af stað í marsmánuði og verður afraksturinn kynntur á Bókasafnsdaginn. Einnig var stuttmyndasamkeppni í framhaldsskólum landsins. Starfsfólki bókasafna gafst kostur á að velja 100 bestu barnabækur allra tíma, en val á 100 bestu íslensku bókunum fór fram í fyrra.

Bókasafn Reykjanesbæjar mun iða af lífi og gestum og gangandi verður boðið upp á léttar veitingar. Gestir geta tilkynnt um uppáhaldsbókina sína og þeim verður síðan stillt upp í viku bókarinnar 22. – 28. apríl n.k. Þá verður vakin athygli á 100 bestu barnabókum allra tíma. Þeir sem luma á skáldagáfum geta spreytt sig á ritun smásögu, sem lengist smátt og smátt eftir því hversu margir kjósa að taka þátt. Samhliða þessu verður hægt að hlýða á upplestur ljóða Suðurnesjaskálda og söng frá Holtaskóla. Safnið er opið kl. 10-19.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024