Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Líða fyrir nálægðina við Reykjanesbæ
Sunnudagur 21. september 2014 kl. 10:36

Líða fyrir nálægðina við Reykjanesbæ

Segir útibússtjóri Landsbankans á Suðurnesjum um lokun útibúa

Frá og með 11. október verður útibúi Landsbankans í Sandgerði lokað. Þrír af fimm starfsmönnum þar færast í útibú bankans í Reykjanesbæ. Bakvinnsla sem starfrækt hefur verið í Reykjanesbæ verður svo flutt í starfsstöð bankans í Mjódd í Reykjavík. Þrettán starfsmönnum úr Reykjanesbæ munu bjóðast störf þar.

Einar Hannesson útibússtjóri Landsbankans á Suðurnesjum segir að á síðustu árum hafi mikil fækkun orðið á útibúum og afgreiðslum hjá öllum bönkum um allt land. Hann segir að krafan um hagræðingu í bankakerfinu sé sterk. „Bankakerfið á Íslandi er stórt miðað við það sem þekkist t.d. á Norðurlöndunum en það réðist að miklu leyti af landfræðilegum aðstæðum og erfiðum samgöngum hér á landi fyrr á tímum. Þó ekki sé litið aftur nema til ársins 2008 þá hefur útibúum og afgreiðslum á landinu öllu fækkað um á fimmta tug. Það er almennur skilningur á að bankakerfið þurfi að minnka og kostnaðurinn að lækka. Hins vegar má svo alltaf rökræða hvar sé rétt að draga saman.“ Einar segir neysluvenjur fólks sífellt að breytast. Þjónustan sé að færast meira á netið og samskiptin yfir í tölvupóst. Meira sé orðið um sjálfsafgreiðslulausnir. „Netbankinn er orðinn okkar langstærsta útibú. Eins hefur orðið algjör bylting í símatækni. Yngra fólk hefur alist upp við þennan tæknivædda heim og eldri kynslóðirnar eru duglegar að tileinka sér tæknina. Nú eru um 85% allra samskipta við útibú rafræn og þessi þróun heldur áfram af miklum krafti.”

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Finnst þér bankinn bera ábyrgð á því að halda uppi þjónustu í sveitafélagi eins og Sandgerði?
„Að sjálfsögðu ber bankinn ábyrgð, þetta er jú banki allra landsmanna og hann þarf að veita góða þjónustu. Það er hins vegar grunnhlutverk stjórnenda bankans að reka hann á ábyrgan hátt, þannig að hann skili þjóðinni arði og skili til baka því sem í hann hefur verið lagt, á sama tíma og hann þjónustar allan almenning. Þarna er alltaf hárfín lína sem er erfitt er að segja nákvæmlega hvar liggur á hverjum tíma.
Hvað Sandgerði varðar þá er stærð samfélagsins á mörkum þess að bera afgreiðslu. Sandgerði líður svo að vissu leyti að fyrir nálægð sína við Reykjanesbæ. Garður, Sandgerði, Vogar og Reykjanesbær eru að megninu til sama atvinnu- og þjónustusvæðið.“ Verið er að skoða hvort boðið verði upp á svokallaðar þjónustuheimsóknir í Sandgerði líkt og gert var í Garðinum eftir að útibúi Landsbankans var lokað þar. Þjónustuheimsóknir munu hins vegar leggjast af í Garðinum frá og með næstu mánaðamótum.

„Ég sem íbúi hérna og starfsmaður bankans, hafði væntingar um það að við gætum haldið þessari starfsemi úti lengur. Ég vonaðist svo sannarlega eftir því. Að ákveðnu leyti eru þetta vonbrigði fyrir mig, en að sama skapi þá skil ég afstöðu þeirra sem stýra þessari einingu. Með þessu er verið að ná fram ákveðinni hagræðingu innan bankans og þau rök vega einfaldlega þungt.“


Er það eðlilegt orðið að íbúar í Garði, Sandgerði og Vogum þurfi að sækja sína bankaþjónustu til Reykjanesbæjar? „Já, ég tel að þessi staðreynd endurspegli í raun það samfélag sem við búum í. Þarna eru margir samverkandi þættir að verki og einn af þeim er sá að kröfur til fjármálaþjónustu eru alltaf að aukast. Sérhæfing starfa er verða meiri og um leið og afgreiðslustöðum fækkar kemur upp krafa um aukna þjónustu í stærri og öflugri einingum. Við erum að svara þessum kröfum. Útibú okkar í Reykjanesbæ er orðið eitt af þeim stærstu á landinu og hér erum við með alla þjónustu. Í litlum afgreiðslum náum við einfaldlega ekki að sinna sérþörfum fólks. Það er einfaldlega útilokað vegna þess hve kröfurnar eru miklar,“ segir Einar. Þegar útibúum var lokað í Garði og Vogum leituðu íbúar svara hjá bankanum vegna almennrar þjónustu. „Það er ósköp eðlilegt og maður skilur afstöðu fólks. Það að búa í samfélagi felur í sér að fá ákveðna þjónustu. Fólk skilgreinir bankaþjónustu sem eina af grunnþjónustunum, sem hún auðvitað er, en okkar rök eru jú þau að þjónustan er ekki að fara neitt, form hennar breytist og það eru viðskiptavinirnir sem ráða því, yfirgnæfandi meirihluti þeirra vill eiga samskipti við okkur með rafrænum hætti og það er í senn hagkvæmt og skilvirkt.“

Hvað varðar lokun bakvinnslu í Reykjanesbæ þá segir Einar hana fyrst og fremst snúast um að störfum eins og þeim sem sinnt var í Reykjanesbæ fari hratt fækkandi innan bankans. Í stað þess að þessi starfsemi myndi fjara út hægt og rólega og fólk missa vinnuna, þá var starfsfólki boðin vinna í Reykjavík þar sem það getur tekist á við ný verkefni.“ Um er að ræða 13 stöður í bakvinnslu sem ekki verða lengur í Reykjanesbæ.

Ákveðin vonbrigði

„Ég sem íbúi hérna og starfsmaður bankans, hafði væntingar um það að við gætum haldið þessari starfsemi úti lengur. Ég vonaðist svo sannarlega eftir því. Að ákveðnu leyti eru þetta vonbrigði fyrir mig, en að sama skapi þá skil ég afstöðu þeirra sem stýra þessari einingu. Með þessu er verið að ná fram ákveðinni hagræðingu innan bankans og þau rök vega einfaldlega þungt.“

Hvernig er annars andrúmsloftið hjá starfsmönnum, er fólk hrætt um sína stöðu hjá bankanum? „Það er kannski fullsnemmt að svara því. Þetta er auðvitað bara mikið áfall. Flestir starfsmenn fengu þessar fregnir á föstudaginn sl. Í hvert skipti sem eitthvað þessu líkt gerist þá skapar það einhvern óróa en við gerum okkar besta til að fara yfir málin með fólki, skýra þróunina og svara spurningum sem vakna. Eins og staðan er í dag þá tel ég að lengra þurfi ekki að ganga í starfsmannamálum og til lengri tíma litið hef ég ekki áhyggjur af starfsöryggi fólksins okkar sem eftir er.“

Í útibúi Landsbankans í Reykjanesbæ starfa, eftir þessar breytingar, 36 starfsmenn og auk þess 15 fastráðnir starfsmenn í afgreiðslunni í FLE. Útboðsferli er í gangi í FLE. „Ef svo illa færi að afgreiðslu okkar yrði lokað, þá kæmi væntanlega annar banki þar inn. Störfin verða því til þarna áfram, hvort sem þau eru hjá Landsbankanum eða ekki.“

Sérðu fyrir endann á þessari þróun í bankamálum hérna á Suðurnesjum? Já, ég geri það. Ég nánast leyfi mér að fullyrða að við erum komin á ákveðna endastöð hvað útibúin varðar en að sjálfsögðu mun bankaþjónusta halda áfram að þróast með tækninýjungum og breyttum neysluvenjum.”