Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Leynilegt neðanjarðarbyrgi fannst á gamla varnarsvæðinu
Miðvikudagur 1. apríl 2009 kl. 09:33

Leynilegt neðanjarðarbyrgi fannst á gamla varnarsvæðinu


Gríðarstórt neðanjarðarbyrgi hefur komið í ljós á fyrrum athafnasvæði Varnarliðsins á Miðnesheiði. Íslenskum stjórnvöldum virðist hafa verið alls ókunnugt um þetta mannvirki svo reikna má með að það hafi þjónað leynilegum tilgangi Bandaríkjamanna hér á landi.

Starfsmenn á vegum ÍAV, sem voru við jarðvegsvinnu á Vallarheiði í gær, ráku upp stór augu þegar þeir komu niður á niðurgrafið mannvirki þar sem þeir hugðust leggja nýjan rafstreng í jörð fyrir HS veitur. Unnið er að því að skipta út 110 volta rafkerfinu á Vellinum í 220 volta spennu.

Í fyrstu var talið að tönn vinnuvélarinnar hefði komið niður á klöpp en við nánari athugun og mokstur kom í ljós steinsteypt plata. Þegar mokað var betur frá komu í ljós veggir þannig að greinilega var um einhvers konar mannvirki  að ræða. Ákveðið var að brjóta gat á plötuna, þar sem ekki var sjáanlegur neinn inngangur í mannvirkið. Það tókst eftir mikið þóf með stórvirkum meitli enda platan mjög rammgerð.

Í ljós kom stórt gímald og var ákveðið að síga niður í það með ljósabúnað til að kanna málið betur. Þar blöstu við mönnum heilmiklar vistarverur, gangar, herbergi og salarkynni.  Greinilegt er að vistarverur þessar hafa verið hugsaðar til langtímadvalar fyrir tugi manna en í því er m.a. að finna fullbúið eldhús. Öll ummerki benda til að það hafi ekki verið í notkun um árabil.

Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, segir engin gögn hafa komið fram um þetta mannvirki þegar félagið tók við umsýslu mannvirkja á gamla Varnarsvæðinu við brotthvarf Bandaríkjahers. Því hafi þessi uppgötvun komið algjörlega á óvart. Verið sé að grennslast fyrir um málið bæði hér heima og í höfuðstöðvum Bandaríkjahers í Norfolk, sem hafði með varnarstöðina á Íslandi að gera. Ekkert hafi komið út úr þeirri eftirgrennslan ennþá og því ómögulegt að segja til um hvaða tilgangi þetta neðanjarðarbyrgi hafi þjónað.

„Það má hins vegar geta þess að eftir að við tókum við svæðinu hafa hringt í okkur gamlir starfsmenn á Vellinum og talað um þetta byrgi. Einn þeirra sagðist hafa unnið við það fyrir mörgum árum að aka gríðarmiklu magni af jarðvegi út á Stafnes að næturlagi en hann fékk aldrei að vita hvaðan þessi jarðvegur kom. Hann var svo notaður til að urða sorp á gömlu haugunum þar. Manni fannst þessar sögur frekar langsóttar en nú er komið í ljós að þær áttu við rök að styðjast,“ sagði Kjartan.

VF hafi samband við Friðþór Eydal sem var upplýsingafulltrúi Bandaríkjahers á Íslandi í tæpa þrjá áratugi. Hann sagðist vera bundinn trúnaði við sína fyrrum vinnuveitendur og vildi því ekki tjá sig um málið. Aðspurður sagðist hann, ásamt nokkrum íslenskum lykilstarfsmönnum Varnarliðsins, hafa unnið sérstakan trúnaðareið þar að lútandi.  Hann hvorki neitaði því eða játaði þegar hann var spurður að því hvort hann hefði vitað um neðanjarðarbyrgið.

Neðanjarðarbyrgið er á svæðinu aftan við byggingu 740, næst byggingu 752 þar sem höfuðstöðvar Varnarliðins voru áður. Úr þeirri byggingu liggur inngangur í byrgið. Í byggingu 740 er Virkjun mannauðs á Reykjanesi með bækistöðvar í dag.
 
Kadeco og Byggðasafn Suðurnesja hafa ákveðið að gefa almenningi kost á að skoða byrgið í dag eftir klukkan 14 í tilefni af opnun sýningarinnar Völlurinn – nágranni innan girðingar. Tekið verður á móti fólki í Virkjun í byggingu 740. Síðdegis í gær var unnið í því að koma raflýsingu neðanjarðarbyrgisins í lag.
---

Efsta mynd: Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, bendir á gatið sem brotið var á þak neðanjarðarbyrgisins í gær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Inngangur í byrgið er í byggingu 752 þar sem yfirmenn hersins höfðu bækistöðvar. Þaðan liggur gangur inn í meginrými byrgisins. Kjartan stendur hér í ganginum.




Augljóst er að neðanjarðarbyrgið hefur verið ætlað til langtímadvalar fyrir tugi manna en í því er meðal annars að finna vel búið eldhús.



Rauða línan á myndinni markar svæði það sem neðanjarðarbyrgið nær yfir. Í byggingu 740 er Virkjun til húsa í dag. Bygging 752 hýsti áður yfirstjórn hersins og þaðan liggja göng inn í byrgið.