Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lestrarmenningu í Reykjanesbæ ýtt úr vör
Miðvikudagur 23. apríl 2003 kl. 15:15

Lestrarmenningu í Reykjanesbæ ýtt úr vör

Verkefninu Lestrarmenning í Reykjanesbæ var ýtt úr vör í dag þann 23. apríl, á alþjóðlegum degi bókarinnar. Lestrarmenning í Reykjanesbæ er samfélagslegt verkefni, sem hefur það að markmiði að efla lestrarfæri og málþroska barna og setja lestur í forgang í bæjarfélaginu. Athöfnin fór fram í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum að viðstöddum fjölda góðra gesta. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem sveitarfélag á Íslandi setur læsi og málþroska barna í forgang með þeim hætti að leitað sé breiðrar samstöðu og stuðnings hjá fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum í bænum, auk skóla og annarra stofnana bæjarins. Eiríkur Hermannsson fræðslustjóri greindi frá inntaki og hugmyndafræði verkefnisins og lagði áherslu á mikilvægi þess að öll heimili, fyrirtæki og stofnanir legðu verkefninu lið. Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra þakkaði forsvarsmönnum verkefnisins sérstaklega, lýsti sérstakri ánægju sinni með það og óskaði því velfarnaðar. Sigurður Svavarsson formaður Félags íslenskra bókaútgefenda fylgdi bókagjöfinni úr hlaði og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson formaður Rithöfundasambands Íslands flutti frumsamið ljóð íbúa Reykjanesbæjar í tilefni dagsins.

Árni Sigfússon bæjarstjóri stýrði athöfninni, Harpa Guðjónsdóttir úr Myllubakkaskóla lék á þverflautu og Fjóla Oddgeirsdóttir frá Njarðvíkurskóla las ljóð.

Þá veitti fríður flokkur barna úr Leikskólanum Vesturbergi, bókagjöf viðtöku. Þessi bókagjöf sem Félag íslenskra bókaútgefenda gefur, er táknrænt upphaf þessa verkefnis. Öll börn í Reykjanesbæ sem eru á
leikskólaaldri, fá bók í dag eftir íslenskan höfund. Bókinni fylgir einnig bæklingur, sem ber yfirskriftina „Viltu lesa fyrir mig?“ Þar er að finna ýmis fróðleikskorn og ábendingar um mikilvægi lestrar með börnum og tengsl hans við málþroska.

Fyrr um daginn hafði hópur rithöfunda, heimsótt alla fjóra grunnskóla bæjarins með upplestur fyrir nemendur. Höfundarnir sem skiptu með sér skólunum eru: Ragnheiður Gestsdóttir, Jón Hjartarson, Guðrún Helgadóttir, Iðunn Steinsdóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson. Heimsókn þeirra var sérstaklega ánægjuleg fyrir alla aðila og móttökur barnanna frábærar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024