Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Lest milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar innan áratugar?
Föstudagur 9. desember 2011 kl. 10:41

Lest milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar innan áratugar?

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, skoðar nú af alvöru hugmyndir um lagningu járnbrautar frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem myndi tengjast járnbrautarkerfi á höfuðborgarsvæðinu. Hugmyndir um járnbrautarlest milli Suðurnesja og Reykjavíkur hafa áður skotið upp kollinum og mikil vinna hefur verið unnin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, segir í samtali við Víkurfréttir að nú sé meðal annarst stuðst við skýrslu sem Orkuveita Reykjavíkur lét gera árið 2001. Hann segir að Orkuveitan hafi kafað ofan í málið þá og í skýrslu þeirra sé nokkuð góð greining á kostum, umfangi og með hvaða hætti væri hægt að framkvæma hugmyndina. Á árinu 2008 fóru Reykjavíkurborg og Samgönguráðuneytið einnig í vinnu til að meta kosti þess að leggja járnbraut til Keflavíkurflugvallar.


„Við erum hrifnir af þeim hugmyndum að samþætta lestarsamgöngur frá Keflavíkurflugvelli við leiðarkerfi á höfuðborgarsvæðinu. Þannig myndi lest ganga frá flugstöðinni og til Reykjavíkur á ákveðinn stað og færi síðan í gegnum borgina og niður í miðbæ. Þetta er í samræmi við það sem við höfum verið að sjá og skoða erlendis varðandi þróun flugvalla, það er alltaf metnaður í því að hafa góðar tengingar niður í miðborg höfuðborgarinnar,“ segir Kjartan í samtali við Víkurfréttir.


Ótti við að þjónusta færist til höfuðborgarinnar

Kjartan segir að auðvitað séu einhverjir óttaslegnir yfir því að ýmis þjónusta muni færast til höfuðborgarinnar og erfiðara sé að veita hana hér. „Ég held að að hluta til séu það alveg raunhæfar áhyggjur. Ef maður skoðar hins vegar reynsluna erlendis frá, þá leggst þjónustan ekki af, en hún breytist. Það þarf kannski líka að breyta þjónustunni í stað þess að keppa við það sem er í boði í höfuðborginni. Reyna frekar að breyta þjónustunni þannig að hún henti betur því samfélagi sem er hér. Það sem við horfum til í okkar vinnu er að kjarninn í þekkingu landsins er staðsettur á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem það er lögfræðiþekking, viðskiptalegs eðlis, tæknilegs eðlis, verkfræðiþekking eða hvað það er. Flóra menningar og veitingastaða er einnig til staðar þarna. Það þýðir hins vegar ekki að ekki sé hægt að byggja upp mjög flottar einingar hérna líka. Ég held að tækifærin séu einmitt að draga ákveðinn massa frá höfuðborginni hingað með það fyrir augum að þróa einstaka hluti sem tengjast menningu, veitingahúsum og þjónustu og að það sé að draga að fólk annars staðar frá. Þetta mun virka á báða vegu. Ekki alltaf horfa til þess að byggja upp eitthvað sem er eins og á höfuðborgarsvæðinu. Það verður samkeppni sem er alltaf erfitt að sigra. Það sem við horfum til er að góðar tengingar við höfuðborgina eru nauðsynlegur partur í okkar uppbyggingu“.


Hækkar fasteignaverð

Kjartan bendir á að með bættum samgöngum við stærri byggðir og borgir þá hækkar fasteignaverð í jaðarbyggðum sem samgöngurnar koma til. Kjartan segir að sýnt hafi verið fram á þetta með rannsóknum, m.a. þar sem hraðbrautir hafa verið settar upp og ferðatími styttur og aðgengi verið gert þægilegra að fasteignaverð hefur jafnast á við það sem gerist í borginni. Það segir okkur að fólk streymir frá borginni og velur þann kost að búa í jaðarbyggðinni þó svo það starfi áfram í borginni.


„Með samgöngum á þennan hátt erum við að byggja upp miklu sterkara samfélag. Með því að fólk flytur út úr höfuðborginni skapast möguleikar fyrir frekari þjónustu í jaðarbyggðinni. Þetta er reynslan erlendis og ég hef enga ástæðu til að halda annað en hún verði eins hér“.


Með viðkomu í Bláa lóninu

Þegar horft er til ferðaþjónustu nefnir Kjartan að það fyrsta sem allir horfi til á flugvöllum er hvort ekki sé lest sem gengur niður í miðborgina. Hann segir að á flestum stærri flugvöllum sem hann hafi komið til sé verið að vinna að þessum málum, að hafa góðar og öflugar tengingar niður í miðborgina. Kjartan nefnir að ákveðinn hópur ferðamanna fari beina leið til Reykjavíkur og þá sé annar hópur sem kjósi frekar að hafa viðkomu umhverfis flugvöllinn og þar höfum við Suðurnesjamenn ýmsa möguleika.


Skýrsla Orkuveitu Reykjavíkur gerði ráð fyrir háhraðalest sem færi á allt að 160 km hraða milli Reykjavíkur og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Það er ein leið. Hinn kosturinn er að fara í sambland af innanbæjarlest og millibæjarlest, léttlest sem kæmist í allt að 120 km hraða. Kjartan bendir á að það sé á svo stuttum kafla leiðarinnar sem hámarkshraði sé nýttur. Stoppistöðvar séu víða. Kjartan nefnir að ein af þeim hugmyndum sem settar hafa verið fram geri ekki ráð fyrir því að lestin liggi meðfram Reykjanesbrautinni alla leið, heldur gæti farið frá Keflavíkurflugvelli í Bláa lónið og þaðan áfram yfir Reykjanesskagann til höfuðborgarsvæðisins.


Þarf að skoða með öðrum stórum fjárfestingum

Ákvörðun um lest milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur mun örugglega spila stórt hlutverk í ákvörðun um flutning innanlandsflugs frá Reykjavík. Þessar tvær stóru ákvarðanir þyrfti að skoða saman og jafnvel að velta upp þeirri spurningu hvort staðsetning nýs hátæknisjúkrahúss sé endilega rétt á þeim stað sem því er ætlaður staður í dag. Nýtt sjúkrahús gæti allt eins verið í Garðabæ eða Hafnarfirði og þar með séu flutningsleiðir með sjúklinga úr sjúkraflugi utan af landi mun styttri. Í dag fer helmingur þess tíma sem tekur að flytja sjúkling frá Reykjanesbæ á Landspítalann í akstur innanbæjar á höfuðborgarsvæðinu. Horfa þarf áratugi fram í tímann og á þá staðreynd að umferð á eftir að þyngjast mikið á komandi árum. Í dag er umferðarþungi mikill á svæðinu við Reykjavíkurflugvöll og Landspítalann og sá þungi á eftir að aukast til muna.


Kjartan segir að við verðum að fara að horfa til þess hvernig þróun samgöngumála eigi að vera í komandi framtíð. Leysa þurfi þau verkefni hvernig eigi að koma miklum fjölda fólks milli staða á sem skemmstum tíma. Erlendis er þetta leyst með lestarsamgöngum. Þá verði líka að horfa til þess mikla fjölda ferðamanna sem koma um alþjóðaflugvöllinn í Keflavík en ferðamannastraumurinn eykst ár frá ári. Þá hafi Keflavíkurflugvöllur nokkra sérstöðu, enda sé hann miklu stærri og betur tengdur en flugvellir í öðrum sambærilegum 300.000 manna samfélögum.


Byggt upp á áratug

Það tekur tíma að byggja upp járnbrautarlestarkerfi og ekki óvarlegt að segja að það taki 10 ár að byggja upp slíkt kerfi sem hugmyndir eru um hér á landi. Menn þurfa því að fara að setjast niður og skoða möguleikana.
„Þeim mun betur sem menn setjast yfir þetta mál og hugsa stefnuna og næstu skref, þeim mun betri verður útkoman. Í stað þess að ýta þessu á undan sér á sama tíma og aðrar stórar ákvarðanir eru teknar og þurfa svo að púsla þeim saman í framtíðinni. Nú er tækifæri til að fara í langtíma stefnumörkun og hefja vinnu við undirbúning“.


- Hvað skýrir áhuga Kadeco á þessum málaflokki?
„Við erum að þróa þetta svæði í kringum flugvöllinn og teljum gríðarlega hagsmuni í því. Við höfum einnig verið að horfa á fordæmi erlendis frá og hvernig svæði í kringum flugvelli eru að þróast. Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika á þessu svæði hér á Suðurnesjum þá er alveg ljóst að gríðarlegur hluti þess hagvaxtar sem á eftir að verða hér á landi á næstu árum og áratugum mun koma frá Suðurnesjum“.


- Hver verða næstu skrefin?

„Atvinnuþróunarfélagið Heklan hefur aðeins skoðað þessi mál. Nú er markmiðið að fara og tala við hagsmunaaðila og þá aðila sem hafa verið að skoða þessa hluti og velta upp þeirri spurningu hvort ekki sé hægt að taka þessa vinnu áfram. Við höfum áhuga á að skoða frekar þá vinnu sem unnin var í Samgönguráðuneytinu og af Reykjavíkurborg árið 2008 og athuga hvort við getum ekki bætt einhverju við“.


Samfélagslegur ábati

Kjartan segir að töluverður kostnaður fylgi því að setja upp lestarkerfið og menn geti varla horft til þess að farmiðasala ein og sér standi undir kostnaðinum. Hins vegar sé samfélagslegur ábati mikill og birtist víða í samfélaginu. Hins vegar sé horft til þess fjölda ferðamanna sem í dag nýta rútur milli flugstöðvarinnar og höfuðborgarinnar, þá væri farmiðasala langleiðina að standa undir rekstrarkostnaði en fjármögnunin stæði út af borðinu. Miðað við aukningu ferðamanna og að heimamenn nýti sér þessar samgöngur þá sé hægt að horfa til þess að verkefnið fari langt með að vera sjálfbært.

„Lagning svona lestar gæti verið gott ímyndarmál fyrir Ísland. Orkan sem lestin nýtir sé virkjuð við hliðina á lestarsporinu. Þá skipta samgöngur orðið miklu máli hjá þeim aðilum sem skoða þá möguleika að setja niður starfsemi og lest sem þessi gæti skorað mörg stig þegar kemur að því fyrir fjárfesta að setja niður atvinnustarfsemi á svæðinu,“ segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, í viðtali við Víkurfréttir.



Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.