Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 11. desember 2003 kl. 09:55

„Lenti oft í aðstæðum þar sem ég kastaði upp af kvíða”

-segir ung kona í Reykjanesbæ sem greindist með geðraskanir fyrir þremur árum í viðtali við Víkurfréttir.

Í síðustu viku var haldinn opinn fundur í Reykjanesbæ um geðheilbrigði á Suðurnesjum. Um 20 manns mættu á fundinn og tóku virkan þátt í umræðum. Gestur fundarins var Sigursteinn Másson formaður Geðhjálpar. Í máli Sigursteins kom fram að lykillinn að góðri heilsu sé tilgangur; að fara fram úr á morgnana, að hafa að einhverju að hverfa og tilgangurinn að lifa. Sigursteinn sagði að tilgangurinn þurfi ekki að vera annar en sá að gera betur í dag en í gær. „Það er alltaf eitthvað ákveðið atvik, aðstæður eða hegðun sem hrindir geðsjúkdómi af stað. Þar liggja ekki alltaf genatískar aðstæður að baki,“ sagði Sigursteinn og bætti við að það væri nauðsynlegt að horfast í augu hver við séum og sætta okkur við það. „Fólki er nauðsynlegt að tala um líðan sína, en um leið þarf að skoða hvað veldur líðaninni og hvað sé hægt að gera til að komast út úr henni.“
„Við lítum í kringum okkur og sjáum glatt fólk sem virkilega hlakkar til jólanna. Okkur langar til að finna gleðina, tilhlökkunina og jólastemmninguna í hjartanu, en kvíðatilfinningin heltekur okkur, “ segir ung kona í Reykjanesbæ sem hefur átt við geðraskanir að stríða síðustu ár. Konan er ein þriggja kvenna sem Víkurfréttir ræddu við um geðraskanir og þjónustu við geðfatlað fólk á Suðurnesjum. Konurnar vilja ekki koma fram undir nafni vegna aðstandenda sinna, en Víkurfréttir munu á næstunni fjalla ítarlega um málefni fólks með geðraskanir á Suðurnesjum.
Í síðustu viku var haldinn fundur í Reykjanesbæ á vegum Geðhjálpar þar sem rætt var um geðraskanir og mætti Sigursteinn Másson formaður félagsins á fundinn. Nokkur fjöldi manns sótti fundinn og kom þar fram að þjónusta við geðfatlaða er lítil sem engin í Reykjanesbæ.
Konan sem er á þrítugsaldri var greind með þunglyndi, kvíða og félagsfælni fyrir um þremur árum. „Ég fór til geðlæknis í byrjun árs 2001 og hef frá þeim tíma verið í viðtals- og lyfjameðferð. Það er nauðsynlegt fyrir mig að vera í þessum meðferðum, í rauninni lífsspursmál. Ég prófaði í sumar að hætta á geðlyfjunum og þá kom eiginlega í ljós að minn sjúkdómur er krónískur. Auðvitað var þetta mikið sjokk, en geðlæknirinn minn sagði að þetta væri eins og með sykursýkina; maður þarf að fá sprautu á hverjum degi,” segir kona en til að geta höndlað lífið segist hún þurfa lyfin sín.
„Líf mitt var í rauninni helvíti. Ég hafði engan tilgang í þessu lífi,” segir konan alvarleg á svip. „Þunglyndi, kvíði og félagsfælni fléttast þannig saman að ég var ofboðslega upptekin af því hvað öðrum fannst um mig því ég hafði litla sem enga sjálfsmynd til að geta verið ég sjálf. Það er ofboðslega erfitt hlutverk að vera alltaf í hlutverki fyrir einhverja aðra. Maður fer alltaf í sitt hvort hlutverkið eftir því með hverjum maður er, en aldrei er maður sáttur inn í sér því maður er ekki maður sjálfur,” segir konan en kvíðinn var einna verstur. „Ég lenti oft í aðstæðum þar sem ég kastaði upp af kvíða og ég gat ekki horft framan í fólk. Ég gat ekki tekið þátt í því sem var að gerast í kringum mig - samt langaði mig ofboðslega til þess. Ég var kannski á fyrirlestrum eða fundum og langaði að taka þátt, koma með innlegg eða eitthvað þannig - en ég þorði það aldrei.”
Eins og áður segir hefur konan sótt meðferð til geðlæknis í Reykjavík síðustu þrjú ár. „Ég fer núna einu sinni í mánuði til Reykjavíkur til að hitta geðlækni, en það er bara af því mér líður vel. Ef mér liði illa færi ég einu sinni í viku.” Fyrir einskæra tilviljun komst konan að því að hún ætti rétt á bílastyrk til að fara til Reykjavíkur til læknismeðferðar, þar sem ekki er boðið upp á slíka meðferð hér á Suðurnesjum. „Það þarf að koma upplýsingum betur til skila til fólks sem á við geðraskanir að stríða. Ég vissi ekkert hver minn réttur væri og að ég ætti rétt á slíkum styrk.”
Í sumar prófaði konan að hætta á geðlyfjunum sem hún hefur verið á síðan hún var greind með geðraskanir. „Lyfin eru hækjur til að takast á við hin margvíslegustu verkefni lífsins. Maður gefst upp fyrir kvíðanum þegar hann fer að stjórna lífi manns. Þetta var orðið þannig hjá mér að ég fór ekki út úr húsi. Ég svaraði ekki í símann eða dyrasímann. Ég er ennþá að berjast við þetta og ég þarf alltaf að vera meðvituð um veikindi mín,” segir konan og heldur áfram. „Í dag líður mér vel og ég er sátt við lífið og tilveruna. Það er líka svo mikilvægt að hafa tilgang til að rísa upp á morgnana og takast á við lífið. Ég þarf á lyfjunum að halda og ég sætti mig við mín veikindi og það er einmitt það sem gerir mér kleyft að takast á við erfiðleika dagsins. Þegar ég horfi til baka þá byrjar mitt líf fyrir þremur árum síðan þegar ég byrja meðferðina. Ég átti mér ekkert líf fyrir þann tíma. Mér líður alveg rosalega vel í dag,” segir konan.
Eftir fundinn sem Geðhjálp stóð fyrir í Reykjanesbæ á dögunum ákváðu nokkrir einstaklingar að setja á fót sjálfsstyrkingarhóp þar sem byggt verður á hugmyndafræði AA samtakanna. Konan segir að hún finni fyrir þörfinni. „Ég hef talað við fólk sem hefur áhuga á því að koma svona hópi af stað. Mér finnst það mjög mikilvægt skref í þjónustu við fólk með geðraskanir á Suðurnesjum að slíkur hópur tæki til starfa og ég ætla að gera mitt besta í þeirri baráttu.”
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024