Lenti á Keflavíkurflugvelli með veikan farþega
Farþegaþota af gerðinni Boeing 747 frá hollenska flugfélaginu KLM lenti á Keflavíkurflugvelli nú eftir hádegið með veikan farþega. Vélin var á leið frá Amsterdam í Hollandi til Los Angeles í Bandaríkjunum.
Þegar þotan var stödd miðja vegu milli Íslands og Grænlands var tekin ákvörðun um að snúa vélinni við og lenda á Keflavíkurflugvelli vegna veikinda farþega um borð.
Sjúkrabíll frá Brunavörnum Suðurnesja beið vélarinnar og er nú verið að koma farþeganum undir læknishendur.