Lengri opnunartími í Kölku
Frá og með fyrsta febrúar verður móttökuplan endurvinnslustöðvar Kölku í Helguvík opið almenningi frá kl. 10.00 á morgnana til kl. 18.00 á kvöldin. Þetta er talsverð lenging á opnunartíma frá því sem verið hefur en Kalka hefur opnað fyrir almenning kl. 13.00 síðustu árin. Þá verður opnunartíminn á laugardögum færður frá kl. 11.00 til 16.00 en hann hefur verið frá 13.00 til 18.00 undanfarið. Opnunartími fyrir fyrirtæki sem nýta þjónustu Kölku breytist ekki.
Breytingin er liður í endurskoðun á þjónustu Kölku sf. en greining á umferð um stöðina leiddi í ljós að hún er alla jafna mest fyrst eftir opnun. Lenging opnunartímans er gerð með breytingum á vinnuskipulagi og ekki er ráðgert að fjölga starfsfólki vegna hennar.
Í október 2019 voru komur viðskiptavina frá 75 upp í 110 á dag og flestar á fyrsta klukkutímanum eftir opnun en fæstar milli 17.00 og 18.00. Á laugardögum voru komur talsvert fleiri en fylgja sama mynstri, eru flestar strax eftir opnun og fæstar í lok dags. Áberandi er hve komum fækkar mikið þegar líður nær lokun á laugardögum. Það er því von stjórnenda og starfsfólks í Kölku að þessar breytingar falli vel að þörfum viðskiptavina.
Þeim sem þurfa að koma úrgangi í endurvinnslustöð á sunnudögum er bent á móttökuplan Kölku í Vogum. Þar er sunnudagsopnun frá 12.00 til 16.00 en opið er þriðjudaga, fimmtudaga og föstudaga frá 17.00 til 19.00 og lokað á laugardögum. Endurvinnslustöðin í Grindavík hefur sama opnunartíma á virkum dögum en er opin frá 12.00 til 17.00 á laugardögum. Lokað er í Grindavík á sunnudögum.