Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lengri ljósatími í kirkjugörðum kostar meira
Þriðjudagur 7. desember 2010 kl. 09:48

Lengri ljósatími í kirkjugörðum kostar meira

Gagnrýni hefur komið fram á kostnaðarhækkun á leiðislýsingu nú fyrir jólin hjá Kirkjugörðum Keflavíkur. Nú kostar 4500 krónur að setja leiðiskross með jólalýsingu á leiði í kirkjugörðunum við Aðalgötu og Hólmsbergskirkjugarði og er hækkunin nokkur frá því í fyrra.

Hjá Kirkjugörðum Keflavíkur fengust þær upplýsingar að verðhækkun á milli ára væri 700 krónur auk virðisaukaskatts. Þá séu notendur nú að greiða fyrir rafmagn, sem áður hafi verið greitt af kirkjugarðinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á móti kemur að nú sé tímabilið lengra þar sem kveikt sé á ljósunum. Nú hafi lýsing verið í boði frá fyrsta sunnudegi í aðventu en undanfarin ár hafi ljósin verið kveikt á þriðja sunnudegi í aðventu.

Jólalýsingin í ár er í höndum verktaka sem býður fólki að leigja ljósakrossa á leiði og býður auk þess upp á geymslu á skreytingum til næstu jóla.

Hjá Kirkjugörðum Keflavíkur er því haldið fram að nú sé meiri og betri þjónusta í boði en áður þekktist og því kannski ekki óeðlilegt að hún kosti meira.

Þeir sem þurfa að lýsa upp fleiri en eitt leiði fá afslátt sem getur orðið 15-20 prósent eftir því hvað mörg leiði þarf að lýsa.

Nú eru aðstæður fólks misjafnar og aukinn kostnaður kemur við fólk. Hjá Kirkjugörðum Keflavíkur fengust þær upplýsingar að engum verði vísað frá görðunum af þeim ástæðum.

Myndin: Úr kirkjugarðinum við Aðalgötu í morgun. VF-mynd: Hilmar Bragi