Lélegt hjá handfærabátum
Það er dræmt fiskiríið hjá handfærabátunum þessa dagana. Lárus Ólafsson á handfærabátnum Baddý GK-277 sagði í samtali við Víkurfréttir að fiskiríið væri dapurt. „Við erum hérna norður á Búrbanka og það er bara lélegt fiskirí. Við erum komnir með eitthvað um tvö tonn,“ sagði Lárus en þeir eru tveir um borð í Baddý.
Að sögn Lárusar hefur veiðin það sem af er sumri verið döpur. „Þetta hefur verið svona rjátl og svipað og síðustu ár.“ Lárus og félagi hans á Baddý verða úti á sjó í nótt og búast við að koma í land á morgun.
Myndin: Baddý GK við Sandgerðishöfn. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.