Leitaði til lögreglu eftir kannabisreykingar
Sextán ára piltur leitaði til lögreglunnar á Suðurnesjum í gærkvöld eftir að hafa veikst af kannabisreykingum. Hann var þá skelkaður, fölur og veiklulegur og kvaðst eiga erfitt með að anda. Hann sagðist hafa verið að reykja með félaga sínum sem hann vildi ekki nefna, né hvar þeir hefðu fengið fíkniefnin.
Lögreglumenn fóru með drenginn á slökkvistöðina í Reykjanesbæ, þar sem sjúkraflutningamenn mældu blóðþrýsting hans, púls og blóðsykur. Þau atriði voru með eðlilegum hætti og var því farið aftur með piltinn á lögreglustöð og sóttu aðstandendur hans hann þangað. Jafnframt var barnaverndaryfirvöldum gert viðvart.