Leikskólinn Tjarnarsel fær grænfánann í annað sinn
Þann 18. ágúst 2009, fékk leikskólinn Tjarnarsel Grænfánann afhentan í annað sinn, sem er alþjóðleg viðurkenning sem Landvernd veitir skólum fyrir umhverfismenntun.
Eitt af markmiðum umhverfismenntunnar er að efla umhverfisvitund barna með umhyggja fyrir umhverfi sínu og hæfileika til að greina samhengi mannlegra athafna og náttúru. Til að flagga Grænfánanum þarf að endurnýja hann á tveggja ára fresti og starfsfólk leikskólans þarf að setja sér ný markmið eftir hverja afhendingu. Í þessum áfanga var farið í verkefnið sem fékk heitið Moltuvinnsla með þátttöku leikskólabarna .
Tilgangur verkefnisins er að draga úr sorphirðu í leikskólanum með því að flokka það mikla magn af lífrænum úrgangi sem fellur til daglega í leikskólanum. Molta er efni sem að útliti, áferð og innri gerð líkist frjósömum, moldarkenndum jarðvegi. Moltan hefur reynst afar hagstætt efni til notkunar við trjáplöntun.
Nánari upplýsingar um umhverfismennt í Tjarnarseli má nálgast á vefsíðu leikskólans www.tjarnarsel.is