Leikskólinn Holt í Innri Njarðvík fær Grænfánann
Í dag fékk leikskólinn Holt í Reykajnesbæ afhendan Grænfánann fyrir starf sitt að umhverfismálum. Frá Landvernd komu Orri Páll Jóhannsson og Heiða Björk Sturludóttir til að afhenda fánann. Leikskólinn Holt ásamt Akurskóla og leikskólanaum Akri fengu nú á dögunum veglegan styrk frá Manngildissjóði Reykjanesbæjar til að vinna að umhverfismálum það er uppbygging á útikennslustofu í Kópu í Innri Njarðvík.
Leikskólinn Holt er skóli sem hefur mótað sér umhverfisstefnu sem hefur það að markmiði að börn og starfsfólk læri að vernda og bera virðingu fyrir náttúrunni og umhverfinu til frambúðar. Lögð er áhersla á flokkun á lífrænum úrgangi sem og flokkun á pappír, fernum, gleri, málmum, plastumbúðum og fleiru sem og orkusparnaði þar sem það á við.
„Markmið okkar með umhverfismenntinni er einnig að gera börnin og kennarana meðvitaðri um umhverfi sitt og þar sem Leikskólinn Holt vinnur eftir hugmyndafræði Reggio Emilia, reynist okkur auðvelt að sameina þessar hugmyndir, en Reggio leikskólar leggja áherslu á listsköpun, endurnýtanlegan efnivið og skapandi starf,“ segir Kristín Helgadóttir leikskólastjóri á Holti í samtali við Víkurfréttir.
Í leikskólum þar sem starfað er eftir Reggio hugmyndafræðinni er nánasta umhverfi barnsins það sem skiptir mestu máli, læra um sitt eigið umhverfi, taka eftir því stóra og smáa sem styrkir sjálfsvitund þess. Í Reggio Emilia er oft talað um umhverfið sem þriðja kennarann, segir Kristín ennfremur.
Myndir frá afhendingu Grænfánans í dag. Að neðan má sjá skrautlega máluð börn á sumarhátíð Holts undir Grænfánanum. Hann má greinilega einnig nota sem tjald.