Leikskólinn Holt hlaut Evrópuverðlaun fyrir læsisverkefni
Leikskólinn Holt í Reykjanesbæ hlaut á dögunum Evrópuverðlaun fyrir verkefnið Read the World eða Lesum heiminn. Verðlaunin voru afhent á fjölmennri verðlaunahátíð í Aþenu og tók Sigurbjört Kristjánsdóttir, deildarstjóri á Holti, við verðlaununum.
Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á árlegri ráðstefnu eTwinning sem að þessu sinni var haldin í Aþenu. Yfir 500 manns tóku þátt og 7 manna sendinefnd var viðstödd frá Íslandi. Verðlaunin voru veitt í nokkrum flokkum fyrir bestu eTwinning verkefni álfunnar á síðasta skólaári. Lesum heiminn vann í flokknum Verkefni sem hvetja til lesturs í aldurshópnum 4 til 11 ára.
Leikskólinn Holt vann verkefnið í samstarfi við leikskóla og skóla á Spáni, í Póllandi, Frakklandi og Slóveníu. Unnið var með söguna Greppikló eða Gruffalo á ensku og hún notuð til að vinna að ólíkum viðfangsefnum þar sem lestur og lýðræði voru tengd saman. Hugmyndin var að hvetja ung börn til að vera skapandi í hugsun og leita sér þekkingar á ýmsum sviðum, þannig að þau „læsu heiminn.“ Verkefnið er gott dæmi um hvernig vinna má með hefðbundið efni, lestur, í nýstárlegu samhengi. Sigurbjört Kristjánsdóttir og Anna Sofia Wahlström voru verkefnisstjórar verkefnisins.
eTwinning er hluti af Erasmus+ menntaáætlun ESB og er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk með hjálp upplýsingatækni. Yfir 400 þúsund kennarar og skólafólk taka þátt. Í hverju landi er landskrifstofa sem styður þátttakendur endurgjaldslaust og gegnir Rannís því hlutverki hér á landi. Yfir þúsund íslenskir kennarar hafa tekið þátt í eTwinning á einn eða annan hátt, og telja samstarfsverkefnin brátt sjö hundruð. Landskrifstofur geta tilnefnt ákveðinn fjölda verkefna til evrópska gæðamerkisins. Verkefni sem hljóta evrópska gæðamerkið geta tekið þátt Evrópuverðlaunum eTwinning.