Leikskólinn Holt fær Erasmus+ styrk
„Verkefnið er bæði spennandi og áhugavert og er starfsmannahópurinn fullur tilhlökkunar að takast á við það,“ segir Kristín Helgadóttir leikskólastjóri á leikskólanum Holti í Reykjanesbæ, en skólinn fékk á dögunum góðan styrk frá Erasmus+.
Með styrknum er ætlað að vinna samstarfsverkefni með skólum í þremur löndum í Póllandi, Slóveníu og á Spáni. Verkefnið ber heitið „Through democracy to literacy“ og mun standa yfir næstu tvö árin. Holt er stýriskóli verkefnisins og heldur utan um skýrslur og verkefnið í heild. Þá gerir styrkurinn skólanum kleift að ferðast til þessara landa, skoða og kynnast starfi samstarfsskólanna. „Eins og nafnið ber með sér þá ætlar starfsfólk að rýna í lýðræði og læsi og skoða hvernig það stendur að þessum þáttum í skólastarfinu. Markmiðið er að bæta vinnubrögðin og læra nýja hluti,“ segir Kristín.