Leikskólakennarar í Reykjanesbæ segja upp
Allir leikskólakennarar í Reykjanesbæ hafa nú sagt upp störfum þar sem samningar við bæjaryfirvöld um launahækkanir hafa ekki náðst. Málið er nú hjá bæjarráði og í biðstöðu að svo stöddu.Reykjanesbær er nú með kjarasamning í gildi við leikskólakennara en Launanefnd sveitarfélaga gerði samninginn fyrir hönd Reykjanesbæjar, en hann var undirritaður 20. september 1997 og rennur út 31. desember árið 2000.„Leikskólakennarar óskuðu eftir launahækkun og bæjarráð ákvað að kanna hvað þeir væru að fara fram á. Menn ræddu saman og málið var hjá bæjarráði þegar leikskólakennarar ákváðu að segja upp. Bæjaryfirvöld voru því aldrei búin að hafna síðustu kröfu þeirra þegar uppsagnirnar fóru að berast. Málið er í biðstöðu frá hendi bæjaryfirvalda að svo komnu máli“, sagði Jónína A. Sanders, formaður bæjarráðs.