Leikskólagjöld: Reykjanesbær kemur vel út í samanburði
Reykjanesbær kemur vel út í samanburði á leikskólagjöldum í 12 sveitarfélögum sem gerð var í upphafi mánaðar. Samanburðurinn er sérstaklega hagstæður fyrir Reykjanesbæ þegar litið er til fjölskyldna með fleiri en eitt barn í dagvistun eða á leikskóla.
Miðað við eitt barn í átta tíma vist og fullu fæði er almennt gjald 23.790 kr. á mánuði og er Reykjanesbær þar í 5. sæti af sveitarfélögunum 12. Meðaltal í þeim hópi er 26.240.
Þegar systkyni bætist við kemur inn afsláttur upp á 15.150 og er Reykjanesbær þá í 3. sæti á eftir Reykjavík og Kópavogi með heildarupphæð 38.940, nokkru undir meðaltalinu 44.254.
Við þriðja barn er tímagjald alfarið slegið út og er einungis greitt fyrir fæði. Reykjanesbær og Reykjavík eru einu sveitarfélögin sem hafa þann háttinn á og er Reykjavík ódýrast þar, eins og í öðrum flokkum, og Reykjanesbær þar strax á eftir. Heildarupphæð með 3 börn er kr. 45.450 en meðalverðið í úrtakinu er 55.180.
Guðríður Helgadóttir, leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar, sagði í samtali við Víkurfréttir að hún væri afar sátt við útkomu bæjarins í þessum samanburði. Bæjaryfirvöld hafi stefnt að því að lækka álögurnar jafnt og þétt án þess að það komi niður á þjónustu sem sé með besta móti. M.a. er mikið og vel hugsað um að leikskólabörn fái kjarngóðan og hollan mat.
Leikskólabörn í Reykjanesbæ. VF-mynd/pket