Leikskólafólk aflaði fjár með miðilsfundi
– Þórhallur miðill sagður hafa farið á kostum.
Starfsfólk leikskólans í Vogum stóð fyrir opnum skyggnilýsingarfundi í gær, þar sem Þórhallur Guðmundsson miðill var með skyggnilýsingar. Skyggnilýsingar og miðilsfundir eru þessa dagana talsvert í samfélagsumræðunni og sýnist sitt hverjum, segir í vikulegu fréttabréfi sem Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum, sendir frá sér. Skyggnilýsingafundurinn var haldinn sem fjáröflunarsamkoma vegna fyrirhugaðrar námsferðar starfsfólks leikskólans árið 2017.
Íbúar sveitarfélagsins virðast hins vegar margir hafa áhuga á málefninu, því aðsóknin var góð, segir bæjarstjórinn. „Góður rómur var gerður að lýsingum Þórhalls, sem var sagður hafa farið á kostum og komið fram með margvíslegar vísbendingar um ýmis tengsl við gesti fundarins sem erfitt var að véfengja,“ segir Ásgeir Eiríksson í fréttabréfinu og bætir við:
„Bæjarstjóri hefur leitt hugann að því að fá Þórhall til að aðstoða við fjárhagsáætlunargerðina, ekki síst væri nú gott að fá aðstoð við að spá um tekjujöfnunarframlag næsta árs úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga,“ og setur svo broskall í lok færslunnar.