Leikmunir og sviðsmyndir Latabæjar verða að leikjagarði í Reykjanesbæ
Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli Latabæjar og Reykjanesbæjar um varðveislu á leikmunum og sviðsmyndum Latabæjar.
Reykjanesbær mun taka að sér varðveislu á leikmunum og sviðsmyndum Latabæjar í 1200 fermetra húsnæði á Fitjum en ákveðið var að opna safnageymsluna fyrir almenningi og skapa þannig skemmtilegt tækifæri fyrir börn og fjölskyldur til afþreyingar.
Samningurinn felur í sér að settur verði upp leikjagarður þar sem sviðsmyndirnar skipa stórt hlutverk og gestirnir geta sett sig í spor Sollu stirðu, Íþróttaálfsins og annarra þekktra persóna úr Latabæ. Vonir standa til að hægt verði að opna þennan ævintýraheim í Rammanum á næstu Ljósanótt.
Á myndinni má sjá Guðmund Magnason framkvæmdastjóra Latabæjar ásamt Baldri bæjarstjóra Latabæjar og Árna Sigfússyni bæjarstjóra Reykjanesbæjar.