Leikfélag Keflavíkur ræður leikstjóra
Leikfélag Keflavíkur hefur ráðið Rúnar Guðbrandsson sem leikstjóri á farsanum Allir á svið, sem frumsýndur verður í haust í Frumleikhúsinu.
Rúnar nam leiklist í Danmörku og á Englandi og hefur lokið MA og Mphil gráðum í leiklistarfræðum og leikstjórn auk þess sem hann hefur hlotið margvíslega þjálfun í leiktækni í Póllandi, Ítalíu, Rússlandi og víðar.
Rúnar hefur áralanga reynslu sem leikhúslistamaður og eru flest svið leiklistarlífsins honum kunn. Hann hefur starfað bæði á Íslandi og erlendis sem leikari, leikstjóri, prófessor í leiktúlkun, hann hefur samið sviðsverk, þýtt leikrit, fengist við ýmis konar tilraunstarfsemi á vettvangi sviðslista og kvikmynda og síðast en ekki síst hefur hann rekið sjálfstætt starfandi leikhóp, Lab Loka, - um árabil og nú einnig hin síðari ár Heimilislausa leikhúsið ETHOS.
Rúnar hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín m.a. The Student Drama Festival Awards í Scarbourough, The Royal Shakespeare Company´s Summer Festival Awards, hann hefur þrívegis verið tilnefndur til Menningarverðlauna DV, í tvígang hefur hann verið tilnefndur sem höfundur ársins af íslensku sviðslistaverðlaununum, Grímunni og tvisvar sinnum sem leikstjóri til sömu verðlauna. Leikhópurinn Lab Loki hefur undir stjórn Rúnars einnig hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna í gegn um tíðina.
Kynningarfundur á verkinu "Allir á svið" verður haldinn í kvöld kl.20:00 í Frumleikhúsinu, vesturbraut 17. Allir 18 ára og eldri velkomnir.