Leikfélag Keflavíkur og Vox Arena í samstarf
Leikfélag Keflavíkur og leikfélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja,Vox Arena hafa ákveðið að leiða saman hesta sína og setja upp söngleik sem samvinnuverkefni í Frumleikhúsinu.
Verið er að skoða leikstjóramál en ljóst er að margir hafa áhuga. Á fimmtudagskvöldið, fimmtud. 19. janúar kl. 20.00, verður haldinn kynningarfundur í Frumleikhúsinu fyrir alla þá sem áhuga hafa á að taka þátt. Eina skilyrðið er að vera orðinn 16 ára og hafa áhuga á leikhússtarfi.
Félög þessi unnu síðast saman fyrir einu og hálfu ári síðan en þá var sýndur söngleikurinn „Slappaðu af“ í leikstjórn Valgeirs Skagfjörð. Meðal verka sem nefnd hafa verið nú er söngleikur unnin upp úr myndinni „Með allt á hreinu“ sem Stuðmenn gerðu ódauðlega á sínum tíma en lög þeirrar myndar óma enn á öldum ljósvakans. Þá hafa einnig komið til tals verk eins og „Footloose“, „Litla hryllingsbúðin“ ofl.
Það mun svo upplýsast á fundinum á fimmtudagskvöld hvaða verk verður endanlega fyrir valinu og eins hvaða leikstjóri verður svo heppinn að fá að vinna við þessa uppsetningu. Stjórnir félaganna beggja hvetja alla áhugasama til að koma á fundinn og fá nánari upplýsingar á því sem framundan er í leikhúslífi bæjarins.