Leikari handtekinn fyrir „vopnað“ rán
Lögreglan í Reykjanesbæ var kölluð út sl. laugardagskvöld um hálf ellefu leytið, þar sem tilkynnt var um að vopnað rán stæði yfir á bensínstöðinni Fitjaborg í Njarðvík. Tilkynnandi kom fullur geðshræringar á lögreglustöðina og kvað grímuklæddan mann ógna starfsfólki stöðvarinnar með dúkahnífi og brást lögreglan því skjótt við og mætti á vettvang í snarhasti. Glæpamaðurinn var „meisaður“ og handtekinn í hvelli, en þá kom í ljós að hann var leikari að leika í stuttmynd. Eitthvað hafði aðstandendum stuttmyndarinnar láðst að láta lögreglu staðarins vita um fyrirætlanir sínar með þeim afleiðingum að leikarinn þurfti að eyða því sem eftir var kvöldsins á heilsugæslustöðinni þar sem „meisúðinn“ var skolaður úr vitum hans. Enn er ekki ljóst hvort athæfi stuttmyndagerðarmannanna verði kært, en ljóst er að þeir brutu lög um tilkynningarskyldu til lögreglu.