Leigugreiðslur vegna nýbygginga 220 milljónir króna
Leigugreiðslur Reykjanesbæjar vegna nýbygginga á árunum 2005 til 2007 er áætlaðar um 220 milljónir króna fyrir tímabilið, en Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. mun reisa nýbyggingarnar á vegum bæjarins. Kom þetta fram í svari fjármálastjóra Reykjanesbæjar í kjölfar fyrirspurnar frá Jóhanni Geirdal bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.
Áætlaður byggingakostnaður Eignarhaldsfélagsins vegna nýbygginga í Reykjanesbæ er tæpur 1,5 milljarður króna á árunum 2005 til 2007, en Reykjanesbær er hlutafi í eignarhaldsfélaginu. Í áætluninni er gert ráð fyrir nýjum leikskóla, Tónlistarmiðstöð, nýjum grunnskóla í Tjarnarhverfi, viðbyggingu við Holtaskóla og byggingu 50 metra innisundlaugar.
Myndin: Skóflustunga tekin að viðbyggingu leikskólans Holts í Innri-Njarðvík í júlí í fyrra, en Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. sá um stækkunina. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson