Leigjendur lögðu íbúð í rúst - vill svartan lista fyrir leigusala
Hjón sem leigðu út hús sitt á Suðurnesjum sjá fram á gjaldþrot eftir að leigjendurnir hættu að greiða leigu og lögðu hús þeirra í rúst. Fyrir utan allar skemmdirnar er ljóst að leigjendurnir starfræktu að auki kannabisræktun í bílskúrnum. Skemmdirnar eru metnar á 1,2 milljónir króna auk 440 þúsund króna í vangreidda leigu.
Fjölskyldan er búsett í Noregi og á hús í Reykjanesbæ sem þau höfðu leigt út síðan þau fluttu erlendis. Þegar leigugreiðslur fóru að berast illa og á endanum ekki, riftu þau leigusamningnum. Hjónin komu til landsins í vikunni í þeim tilgangi að koma húsnæðinu aftur í leigu. Þá blasti við þeim algerar hörmungar en hús þeirra var í rúst. Konan deildi reynslu sinni á facebook samskiptavefnum og hefur saga hennar farið sem eldur í sinu um netheima.
Þegar hjónin komu að húsinu blasti skelfileg sjón við þeim, í innkeyrslunni fyrir framan bílskúrinn voru stæður af svörtum plastpokum fullum af drasli, hurðin milli skúrs og húsins var ónýt og í garðinum fyrir framan húsið lágu meðal annars dýnur úr hjónarúmi og brotin húsgögn sem hafði verið hent fram af svölunum. Ekki var ástandið betra innandyra.
Í bréfi konunnar segir: „Ég komst inn í ganginn gat kíkt inn í stofu og geymsluna undir stiganum þá bara varð ég að komast út því lyktin var mér um megn og eyðileggingin algjör, ég stóð bara úti á plani og grét. Eftir nokkra stund ákvað ég að harka þetta af mér og fara inn aftur og kíkja á restina. Við vorum orðlaus á því að nokkur manneskja gæti gengið svona um og hvað þá meira búið í þessum viðbjóði með tvo lítil börn! Meira að segja þegar að við rótuðum með fætinum í draslinu á gólfinu var hundaskítur í hrúgunni, og meðal annars voru kótilettur og kartöflur inni í ofninum vel grænt og lyktaði skemmtilega.“
Konan er á þeirri skoðun að það eigi að vera til sérstakur svartur listi þar sem varað sé við svona leigjendum en hún nafngreinir leigjendurna í bréfinu.
Mikið af fólki tjáir sig í athugasemdum um þessa færslu konunnar en þar hafa aðrir svipaðar sögur að segja. „Þetta eru dæmigerðir leigjendur frá helvíti. Móðir mín er nýbúin að losna við svona skítapakk úr leiguíbúð sem hún á. Það var að vísu ekki svona svæsið dæmi en slæmt engu að síður,“ segir einn lesandi og hann nafngreinir einnig þann leigjanda.