Leiga á skurðstofum tefst enn
Fjármálaráðuneytið reiknar með að afgreiða erindi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HS), varðandi útleigu á skurðstofum stofnunarinnar, fyrir lok þessa mánaðar. Þetta kom fram á Alþingi fyrir helgi.
Svari Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra við fyrirspurn Ragnheiðar E. Árnadóttur alþingismanns var dreift á föstudag. Hún spurði hvað tefði útleigu á skurðstofum HS.
Í svari ráðherrans kom m.a. fram að stjórnendur HS hafi skýrt frá ósk sinni um að mega leigja skurðstofurnar út á fundi í ráðuneytinu 10. mars síðastliðinn. Á fundinum sýndu þeir drög að leigusamningi. Áður hafði HS auglýst skurðstofur til leigu í samráði við Ríkiskaup.
Ráðuneytið taldi þörf á frekari upplýsingum og kallaði eftir þeim. „Sem dæmi má nefna nánari útlistanir á aðkomu leigjenda að sjúkrahúsinu allan sólarhringinn, skil milli þess sem leigt er og þess sem ekki verður leigt, heimildir starfsmanna leigjenda til að fara um aðra hluta heilbrigðisstofnunarinnar, aðkomu að stoðdeildum o.fl.
Benda má á að þar sem ætlunin mun vera að framkvæma skurðaðgerðir á útlendingum þarf mjög að vanda til sóttvarna og tengdra þátta þannig að önnur þjónusta stofnunarinnar truflist ekki vegna smitsjúkdóma,“ sagði m.a. í svari ráðherrans.
Frá þessu var greint á vef Morgunblaðsins.