Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Leifsstöð: Lögreglan veitir Saga Class farþegum forgang við vopnaleit
Miðvikudagur 11. júlí 2007 kl. 23:16

Leifsstöð: Lögreglan veitir Saga Class farþegum forgang við vopnaleit

Þótt farþegar í almennum farrýmum og á Saga Class greiði sama öryggisgjald fyrir vopnaleit í Leifsstöð hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum tekið í notkun sérstaka braut fyrir Saga Class farþega til þess að þeir þurfi ekki að bíða jafnlengi og almenningur. Lögreglustjórinn segir að það bitni ekki á þjónustu við aðra farþega að Saga Class farþegarnir fái þessa sérmeðferð - sérstakt fjárframlag geri mönnum kleift að bjóða þessa þjónustu. Fréttavefurinn Eyjan.is greinir frá þessu í dag.

Viðbrögð við auknum töfum
Tafir á flugstöðvum eru vaxandi vandamál um allan heim og ferðalangar hafa þurft að venjast lengri biðröðum í bæði innritun, vegabréfaskoðun og vopnaleit. Farþegar á Saga- og Business Class farrýmum Icelandair hafa lengi haft aðgang að sérstökum innritunarborðum í Leifsstöð þar sem innritun tekur skemmri tíma en hjá öðrum ferðalöngum á leið úr landi. Nú hefur bið þessara farþega eftir að komast í gegnum vopnaleitina einnig verið stytt með sérstöku hliði fyrir fólk með Saga- og Business Class miða. Vopnaleitin er í höndum sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli.

Allir farþegar greiða jafn hátt öryggisgjald
Samkvæmt upplýsingum frá flugstöðinni er sérstakt öryggisgjald innheimt af öllum seldum flugmiðum sem inniheldur greiðslu fyrir vopnaleit en það er föst krónutala sem allir farþegar greiða en ekki prósentuhlutfall af verði miðans.

Ekki brot á stjórnsýslulögum
„Þetta er tilraunaverkefni í tvo mánuði,“ segir Jóhann Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli í samtali við Eyjuna.is. Hann neitar því að ríkinu sé óheimilt samkvæmt stjórnsýslulögum að mismuna fólki við löggæslueftirlit. „Okkur er þetta fyllilega heimilt. Þetta er samskonar vopnaleit og aðrir ganga í gegnum. Það kom beiðni um þessa auknu þjónustu og það er bara gott mál. Við veitum hana fúslega enda fáum við sérstaklega greitt fyrir hana.“

Aukakostnaður kemur ekki niður á almennri vopnaleit
Jóhann viðurkennir að það geti komið niður á þjónustu við aðra farþega ef starfrækt eru sérstök hlið, mönnuð af sýslumannsembættinu, sem ekki megi afgreiða fólk á almennum fargjöldum. „En það er ekki þannig í þessu tilfelli. Þarna kemur til skjalanna viðbótar fjárframlag sem gerir okkur kleift að veita ákveðnum hóp þessa þjónustu.“

Ekki ljóst hver ber kostnaðinn af hraðahliðinu
Jóhann Benediktsson sýslumaður segir að kostnaðurinn sé ekki tekinn af þeim lið sem standi undir annarri vopnaleit og komi því ekki niður á þjónustu við aðra farþega. Arngrímur Guðmundsson, deildarstjóri öryggissviðs Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar segir að eina aðkoma þess embættis að málinu sé sú að tryggja að þetta vopnaleitarhlið uppfylli kröfur um svokalla flugvernd. Aðspurður um hvort flugmálastjórnin hafi sett fjármagn í það að koma hraðhliðinu upp segir Arngrímur svo ekki vera, “Við sjáum um að innheimta þetta svokallaða öryggisgjald sem allir farþegar greiða en ekkert af því fé rennur til þessa einstaka hliðs.”

Hraðmeðferð fárra útvaldra fjármögnuð af ríkinu?
Höskuldur Ásgeirsson forstjóri flugstöðvarinnar sagðist í samtali við Eyjuna fyrr í dag telja að enn væru ekki komnar til sérstakar greiðslur vegna þeirra sem fá þessa hraðmeðferð hjá vopnaleit sýslumannsins. Hann sagði að það yrði skoðað eftir að þessu tilraunaverkefni lyki. Það er því enn fyllilega óljóst hver ber kostnaðinn við vopnaleit á Saga- og Business Class farþegum Icelandair. Þó virðist sem að þeir peningar komi með einhverjum hætti úr vösum skattgreiðenda.

www.eyjan.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024