Leifar miltisbrandshrossanna urðaðar
Leifum hrossanna sem voru brennd eftir að þau sýktust af miltisbrandi í desember hefur verið komið til urðunar í Álfsnesi. Sandbeði sem var á svæðinu var einnig mokað í gám og urðaður. Svæðið á Vatnsleysuströnd þar sem miltisbrandurinn kom upp verður girt af. Talin er hætta á frekara smiti fyrir grasbíta á svæðinu.
Gunnar Örn Guðmundsson héraðsdýralæknir Gullbringu- og Kjósaumdæmis sagði í samtali við Víkurfréttir að í bígerð væri að rannsaka svæðið frekar. Sagði hann að gengið hefði verið um svæðið og leitað að ummerkjum en ekkert fundist. Gunnar sagði aðspurður að ákveðin hætta sé á að grasbítar á svæðinu geti smitast af miltisbrandi.
Þrjú hross drápust úr miltisbrandi á bænum Sjónarhóli og var fjórða hrossinu lógað í kjölfarið fyrir tæpum mánuði síðan. Hræ hrossanna voru brennd og fylgst hefur verið með hrossum af nágrannabæjum, ásamt nokkrum sauðkindum. Umferð dýra og manna var takmörkuð á meðan svæðið var rannsakað.
Miltisbrandur er bráður og oftast banvænn bakteríusjúkdómur sem öll dýr með heitt blóð geta tekið. Hann er algengastur í grasbítum. Hann greindist síðast á Íslandi árið 1965. Sjúkdómnum veldur, Bacillus anthracis, sem er grómyndandi baktería. Gróin geta lifað í áratugi eða jafnvel aldir í jarðvegi. Oftast kemur sjúkdómurinn upp í tengslum við jarðrask og því er sjúkdómurinn staðbundinn. Skepnur smitast við að drekka mengað vatn, bíta mengað gras eða við að éta mengað kjöt- og beinamjöl.
Myndir: Hræ hrossanna voru brennd að bænum Sjónarhóli á Vatnsleysustörnd. VF-ljósmynd/Þorgils Jónsson.