Leiðandi afl á alþjóðavettvangi í fullvinnslu á þorski
- Codland hefur starfsemi sína í Kvikunni í Grindavík
- Codland hefur starfsemi sína í Kvikunni í Grindavík
Codland er fullvinnslufyrirtæki á Suðurnesjum sem sérhæfir sig í hámarksnýtingu á hráefnum þorsks. Á bak við Codland standa ýmis ólík fyrirtæki en öll eiga þau það sameiginlegt að leggja áherslu á fullnýtingu og verðmætaaukningu á áður illa nýttum hráefnum. Það má segja að Codland sé tengipunktur og samstarfsvettvangur þessara fyrirtækja.
Síðustu ár hefur orðið mikil vitundarvakning á sviði fullvinnslu á fisktengdum afurðum. Fiskihráefni sem áður voru talin einskis virði hafa öðlast gildi og eru nú nýtt í framleiðslu á ýmsum heilsutengdum vörum. Auknar rannsóknir á þorski hafa m.a leitt í ljós mikla virkni þorskensíma og græðandi áhrif þeirra á erfið sár á mannslíkamanum. Þessi faldi fjarsjóður skapar aukin verðmæti í sjávarútvegi og hafa sjávarútvegsfyrirtæki sífellt litið meira til aukaafurða til að bæta afkomu sína.
Íslendingar bestir í fullnýtingu þorsksins
Eins og fyrr segir hefur vinnsla aukaafurða aukist til muna undanfarin ár. Frá árunum 2005 til ársins 2011 hefur vinnslan næstum þrefaldast og á sama tímabili hafa verðmæti þessara afurða sexfaldast. Íslendingar standa mörgum nágrannarþjóðum framar í fullnýtingu þorksins en nýting aflans hér á landi er að meðaltali 76% og allt að 95% hámarksnýting hjá sumum fyrirtækjum á meðan um 300.000 tonn af þorski er hent fyrir borð í Norður-Atlantshafi hjá stærstu fiskveiðiþjóðunum. Meðalnýting þeirra er í kringum 45-50%.
Íslendingar stefna hins vegar enn hærra og með verkefnum á borð við Codland má ná fram aukinni hagkvæmni við nýtingu á þorski. Nýjungar eins og ensímvinnsla, próteinvinnsla, og bætt lifrarvinnsla skapa verðmæti sem annars færu til spillis.
Codland býr til spennandi og krefjandi störf
Codland starfrækir þekkingarsetur sem er staðsett á annarri hæð í Kvikunni, Saltfiskssetri Grindavíkur. Þar er starfrækt markaðstorg þar sem fyrirtæki Codland hafa aðstöðu fyrir daglegan rekstur. Þar er unnið að margvíslegum verkefnum tengdum starfsemi Codland sem lúta m.a. að markaðssetningu aukaafurða, fullvinnslu aukaafurða, ensímrannsóknir, kortlagningu líftæknifyritækja og eflingu klasasamstarfs á Suðurnesjum.
Margir starfsmenn Codlands eru ungir háskólamenntaðir einstaklingar með ólíka reynslu og menntun enda eru störfin fjölbreytt og spennandi. Dagsdaglega starfa í setrinu tveir vélaverkfræðingar, einn efnafræðingur, einn kennslufræðingur og einn viðskiptafræðingur.
Starfsmenn:
Á myndinni hér að ofan eru, f.v., Viðar Hafsteinsson, BSc í vélaverkfræði, en í sumar vinnur hann að því að taka út Codlandverksmiðjuna þar sem hann reiknar m.a. út afköst, orku- og vatnsnotkun, nýtni hennar og kannar möguleika á hvernig megi bæta hana.
Arnar Jónsson, BSc í vélaverkfræði, en hann starfar sem verkefnastjóri hjá Íslenska sjávarklasanum. Hann mun vinna náið með sumarstarfsmönnum Codland í sumar.
Gunnar Sandholt, efnafræðingur, kemur með vísindaþekkinguna inn í sjávarútveginn. Markmið hans er að tengja saman vísindarannsóknir og matvælaframleiðslu, þ.e. fullvinna fiskinn allt frá flökum að ensímum og finna not fyrir lífvirk efni sem finnast í fiskum.
Friðrik Björnsson, viðskiptafræðingur, er markaðstjóri Codlands, hann vinnur að því að finna markaði fyrir unnar afurðir þorskins.
Margrét Albertsdóttir, kennslufræðingur, gegnir kynninga- og fjölmiðlafulltrúa starfi Codlands.