Leggur ekki mat á fyrningaleiðina
Bæjarráð Sandgerðisbæjar segist ekki leggja mat á hugmyndir ríkisvaldsins um svokallaða fyrningaleið þó það telji endurskoðun á fiskveiðikerfinu eðlilega. Þetta kemur fram í viðbótarbókun bæjarráðs vegna bókunar sem það gerði á dögunum þar sem ráðið fagnaði „fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar um endurskoðun fiskveiðikerfisins“.
Í fyrri bókuninni segir að sanngjörn endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu sé gleðiefni og gefi Sandgerðingum von um „réttmæta leiðréttingu,“ eins og það er orðað. Bókunina hefði mátt túlka sem svo að bæjarráð væri að fagna hugmyndum um fyrningaleiðina svokölluðu, sem mætt hefur harðri andstöðu annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Sjá bókun hér
Í viðbótarbókuninni er þetta hins vegar útskýrt nánar en hún er svohljóðandi:
„Sandgerðisbær hefur án efa orðið fyrir mestu breytingum aflaheimilda og á lönduðum afla frá því að kvótakerfið var tekið upp. Mikið af upphaflegum veiðiheimildum hefur færst frá bæjarfélaginu á liðnum árum og sérstaklega þegar öflug sjávarútvegs fyrirtæki voru seld eða færð til annarra útgerðarfélaga.
Bæjarfulltrúar Sandgerðisbæjar leggja hinsvegar þunga áherslu á að þau sjávarútvegsfyrirtæki sem nú eru staðsett í bæjarfélaginu og eru í dag að sinna vinnslu í tengslum við Sandgerðishöfn hafa með elju og ærnum kostnaði unnið aftur hluta af þeim heimildum sem hér komu til löndunar á árum áður.
Bæjarfulltrúar Sandgerðisbæjar telja hinsvegar endurskoðun á umræddu kerfi eðlilegar. Ekki er verið að leggja mat á hugmyndir ríkisvaldsins um fyrningaleið enda hafa slíkar útfærslur ekki séð dagsins ljós.
Hinsvegar hafa komið fram nýjar hugmyndir um strandveiðar sem gætu gefið útgerðaraðilum í og við Sandgerðishöfn möguleika á betri afkomu á næstu árum.
Bókun bæjarráðs frá 471. fundi byggir á slíkri nálgun en verður að byggja á sátt við þá aðila sem hafa með veiðiheimildir að gera í núverandi kvóta kerfi. Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og aflar þjóðinni drjúgan hluta af gjaldeyristekjum samfélagsins. Varhugavert er því að setja atvinnugreinina í uppnám við það eitt að ganga til alþingiskosninga.
Tillögur eða hugmyndir ríkisvaldsins um breytingar verða að miða við styrkleika og stöðu þjóðarbúsins hverju sinni. Slík endurskoðun þarf að hafa það að markmiði að skapa betri og vonandi endanlega sátt um kerfið til framtíðar. Sáttin á að byggja á nánum tengslum útgerða við byggðarlög landsins að mati meirihluta bæjarfulltrúa Sandgerðisbæjar.“