Leggjast gegn samningi án útboðs
Fulltrúar A-listans í bæjarráði leggjast gegn því að Reykjanesbær semji við eitt ákveðið fyrirtæki um tugmilljóna króna framkvæmd án útboðs. Um er að ræða fyrirhugaðar framkvæmdir við íþróttasvæði sveitarfélagsins en fyrir bæjarráði lá til undirritunar samningur milli Reykjanesbæjar, Stafnvíkur ehf og Íþrótta- og ungmennafélagsins Keflavíkur vegna verkefnisins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja samninginn sambærilegan öðrum slíkum samningum en algilt sé að gera samninga við íþróttahreyfinguna um framkvæmdir eða þjónustuverk.
Í bókun sem Guðbrandur Einarsson lagði fram fyrir hönd A-listans segir:
„Við lýsum okkur mótfallna fyrirliggjandi samningi milli Reykjanesbæjar og Stafnvíkur ehf. sem lagt er til að verði undirritaður undir yfirskriftinni „Samkomulag um samstarf á sviði byggðaþróunar og framkvæmda við íþróttasvæði sveitarfélagsins”.
Í fyrsta lagi erum við ósammála því að verið að semja við fyrirtæki um tugmilljóna króna framkvæmd án úboðs eins og lagt er til í þessum samningi. Þarna er um að ræða framkvæmdir fyrir tæpar 44 milljónir króna og það getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu að semja við eitt fyrirtæki um slíka framkvæmd án útboðs, né heldur er það í samræmi við útboðsreglur sem gilt hafa í Reykjanesbæ til fjölda ára.
Í öðru lagi teljum við það orka tvímælis, að fyrir slíka framkvæmd verði hugsanlega greitt með gatnagerðargjöldum vegna byggingaframkvæmda við Hringbraut, sem nú eru í skipulagsferli og ekki er víst að af verði. Slíkt háttalag setur óþarfa pressu á skipulagsyfirvöld sem þurfa að geta lagt hlutlægt mat á þá framkvæmd og án þess að til komi nokkur fjárhagsleg pressa af hálfu bæjaryfirvalda sem óhjákvæmilega verður til með þessum samningi.
Verði komist að þeirri niðurstöðu að heimila byggingingar á íþróttasvæðinu við Hringbraut munum við að sjálfsögðu styðja það að sá ábati sem muni falla til við þær framkvæmdir renni til íþróttahreyfingarinnar en það er annað mál og óskylt þeirri stjórnsýslu sem lögð er til skv. fyrirliggjandi samningi. Reykjanesbær hlýtur eins og önnur sveitarfélög, að geta fjármagnað þau verk sem til falla í sveitarfélaginu á einhvern annan hátt en þennan.
Við teljum því rétt að fallið verði frá þessum samningi. Innihald hans er í engu samræmi við yfirskriftina.“
Böðvar Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun f.h. meirihlutans :
„Samningur sá sem hér er til afgreiðslu er á milli þriggja aðila, Reykjanesbæjar, Stafnvíkur ehf. og Íþrótta- og ungmennafélagsins Keflavíkur. Algilt er að gera samninga við íþróttahreyfinguna um framkvæmdir eða þjónustuverk sem kemur bæði íþróttahreyfingunni og sveitarfélaginu til góða. Þessi samningur er sambærilegur öðrum slíkum samningum.“
Samningurinn var samþykktur með þremur atkvæðum meirihlutans gegn tveimur atkvæðum minnihlutans.