Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Leggja til viðbótarniðurgreiðslu vegna dagvistunar
Miðvikudagur 30. mars 2005 kl. 14:03

Leggja til viðbótarniðurgreiðslu vegna dagvistunar

Fulltrúar Samfylkingar í fjölskyldu- og félagsmálaráði Reykjanesbæjar hafa lagt til að tekjulágar fjölskyldur geti héðan í frá sótt um viðbótarniðurgreiðslu vegna dagvistunar í heimahúsum.

Í flestum nálægum sveitarfélögum fá forgangshópar eins og einstæðir foreldrar og námsmenn hærri framlög. Flutningsmenn tillögunnar, þær Sveindís Valdimarsdóttir og Gerður Pétursdóttir, telja hins vegar skynsamlegra að tengja niðurgreiðslu frekar við tekjur heimilis, enda sé best að ná þannig til þeirra sem mest þurfa á slíku að halda.

Tillagan hljóðar svo: „Fjölskyldu- og félagsmálaráð leggur til að umfram almenna niðurgreiðslu til allra foreldra geti fjölskyldur sem eru undir eftirfarandi mánaðartekjum sótt um frekari niðurgreiðslu.“ 

 

Tekjur   8-9 tíma vistun 6-7 tíma vistun   4-5 tíma vistun
undir 130 þús  10.000    8.000 6.000
130-200 þús 5.000   4.000   3.000


Í rökstuðningi sínum benda flutningsmenn tillögunnar á að niðurgreiðsla Reykjanesbæjar í þessum málaflokki sé lág í samanburði við mörg önnur sveitarfélög.

Niðurgreiðsla fyrir 9 tíma dagvistun er nú 11.000 krónur, sem er talsvert lægra en t.d. í Reykjavík (14.850), Seltjarnarnesi (13.500) og ekki síst í Hafnarfirði þar sem greiðslan er 24.210.
Viðbótarniðurgreiðsla mun koma ofan á 11.000 krónurnar og áætla flutningsmenn að kostnaður við breytinguna gæti numið um 2.5 til 3 milljónum króna á ári.

Afgreiðslu tillögunnar var frestað til að fulltrúar meirihlutans geti kynnt sér málið til hlýtar og verður hún að öllum líkindum tekin fyrir á næsta fundi fjölskyldu- og félagsmálanefnd í næstu viku.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Sveindís að Samfylkingin væri að skoða nokkur önnur málefni tengd félagsþjónustu hér í bæ. „Við verðum að gera okkur grein fyrir því að fólk sem er að íhuga að setjast hér að veltir fyrir sér þjónustustiginu áður en það tekur ákvörðun.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024