Leggja til fjárveitingu vegna Grindavíkurvegar
- Tvö hundruð milljónir til endurbóta
Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að veittar verði 200 millj. kr. til endurbóta á Grindavíkurvegi vegna umferðaröryggismála. Þetta kemur fram á Facebook-síðu alþingismannsins Vilhjálms Árnasonar.
Vilhjálmur segist vera óendanlega þakklátur fyrir tillöguna og hlakki til að greiða sitt atkvæði við aðra umræðu fjárlaga. Umferðaröryggi séu eitt brýnasta verkefni stjórnvalda.
„Mikil samvinna og samráð bæjaryfirvalda í Grindavík, stærstu fyrirtækjanna á svæðinu, þingmanna suðurkjördæmis, Vegagerðarinnar, samgönguráðherra og starfsfólks ráðuneytisins, fjárlaganefndar, fjármálaráðherra, fjölmiðla o.fl. hefur skilað þessum áfanga. Þetta þýðir að nú getum við hafist handa á næsta ári við 1. áfanga í því að aðskilja akstursstefnur á Grindavíkurvegi og auka umferðaröryggi á einum áhættusamasta og slysamesta vegi landsins. En verður verk að vinna og veit ég að samstaðan um það mun halda áfram. Þakklátur segi ég - Gleðileg jól kæru vinir.“
Úr nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018:
11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
11.10 Samgöngur.
Gerð er tillaga um 755 millj. kr. tímabundið framlag til samgöngumála sem skiptist í þrennt. Í fyrsta lagi 480 millj. kr. til þess að leggja bundið slitlag á veginn um Skriðdal og endurbæta hann. Í öðru lagi 200 millj. kr. til endurbóta á Grindavíkurvegi vegna umferðaröryggismála. Loks 75 millj. kr. til almenningssamgangna á landsbyggðinni.
Einnig er lögð til leiðrétting á skiptingu fjárveitinga þannig að 511 millj. kr. færist af öðrum gjöldum yfir á tilfærslur til samræmis við skiptingu síðustu ára.