Leggja ljósleiðara meðfram Reykjanesbraut
-Vegna aukinna umsvifa í Helguvík
Unnið er að lagningu ljósleiðara meðfram Reykjanesbraut. Mun hann liggja frá tengivirkinu Hamranesi ofan við Vallahverfið í Hafnarfirði og að tengivirkinu á Fitjum. Ljósleiðarinn er lagður vegna aukinna umsvifa í Helguvík. Á Fitjum mun nýi ljósleiðarinn tengjast öðrum sem liggur þaðan og í Helguvík.
Að sögn Bjarna M. Jónssonar, forstjóra Orkufjarskipta hf., er áætlað að verkinu ljúki í maí. Til hafði staðið í nokkur ár að ráðast í lagningu ljósleiðarans sem er aðallega hugsaður fyrir Landsvirkjun og Landsnet. „Allar svona framkvæmdir eru góðar fyrir samfélagið. Ljósleiðarar eru mikilvægir fjarskiptainnviðir sem gefa möguleika á alls kyns tengingum. Þetta gefur okkur möguleika á að tengja saman raforkukerfið á Íslandi á öruggan hátt, hvort sem það eru spennistöðvar, virkjanir eða orkufrekur iðnaður. Þar gegnir ljósleiðarinn lykilhlutverki. Raforkukerfið þarf að vera undir stöðugu eftirliti og stýringu. Það er aldrei hægt að setja meira rafmagn inn á kerfið en verið er að nota á hverri stundu. Það þarf því að stjórna flæðinu, minnka framleiðslu eða auka í takt við notkun.“