Leggja fram tillögu að hjólastíg frá flugstöðinni
Ásmundur Friðriksson og Oddný G. Harðardóttir eru meðal þeirra þingmanna sem hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um að byggð verði hjólaleið milli höfuðborgarinnar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Þeir þingmenn sem leggja tillöguna fram eru allir úr Suður-, Suðvestur-, og Reykjavíkurkjördæmunum en allir flokkar nema Framsóknarflokkur og Flokkur fólksins leggja tillöguna fram. Í henni er meðal annars vísað í kostnaðargreiningu í lokaritgerð Eiríks Ástvalds Magnússonar, en í henni kemur meðal annars fram hvar hjólastígurinn á að liggja. Einar skrifar í lokaritgerðinni að hún myndi í stórum dráttum liggja eftir gamla Keflavíkurveginum og Vatnsleysustrandarvegi. Þá yrði malbik lagt á hluta leiðarinnar sem nú þegar eru malarvegir, ásamt tengingum. Viðskiptablaðið greinir frá þessu.
Ýmsar röksemdir eru settar fyrir hjólastíg við Reykjanesbrautina, m.a. aukin hætta fyrir hjólandi á vegöxl Reykjanesbrautar.
Samkvæmt tillögunni, sem nú liggur fyrir Alþingi, snýr hún að því að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipa starfshóp um gerð hjólaleiðarinnar.
Samkvæmt henni á starfshópurinn að skila af sér áfangaskiptri og kostnaðargreindri tillögu að hjólaleið fyrir 1. janúar 2019.
Fyrsti flutningamaður tillögunnar er Pawel Bartoszek, varaþingmaður Viðreisnar.
Aðrir þingmenn sem standa að tillögunni:
Jón Steindór Valdimarsson - Viðreisn, Suðvesturkjördæmi
Þorgerður K. Gunnarsdóttir - Viðreisn, Suðvesturkjördæmi
Þorsteinn Víglundsson - Viðreisn, Reykjavíkurkjördæmi Norður
Ásmundur Friðriksson - Sjálfstæðisflokki, Suðurkjördæmi
Birgir Þórarinsson - Miðflokkurinn, Suðurkjördæmi
Björn Leví Gunnarsson - Píratar, Reykjavíkurkjördæmi Suður,
Guðmundur Andri Thorsson - Samfylkingin, Suðvesturkjördæmi
Helga Vala Helgadóttir - Samfylkingin, Reykjavíkurkjördæmi Norður
Oddný G. Harðardóttir - Samfylkingin, Suðurkjördæmi
Ólafur Þór Gunnarsson - VG, Suðvesturkjördæmi
Rósa Björk Brynjólfsdóttir - VG, Suðvesturkjördæmi,
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir - Píratar, Reykjavíkurkjördæmi Suður