Laus störf hjá Nesfiski: Pólverjar ráðnir í störf sem Íslendingar vilja ekki
Sjávarútvegsfyrirtækið Nesfiskur í Garði er að ráða til sín 12 Pólverja til fiskvinnslustarfa um þessar mundir, en fyrirtækið hefur auglýst eftir starfsfólki í fjölmiðlum og hjá Svæðisvinnumiðlun Suðurnesja. Að sögn Bergþórs Baldvinssonar framkvæmdastjóra Nesfisks voru fáir íslendingar sem sóttu um störf hjá fyrirtækinu. „Við fengum of fáa íslendinga sem sóttu um þannig að við ráðum til okkar 12 pólverja,“ segir Bergþór en á síðasta ári fóru um 20 útlendingar sem störfuðu hjá Nesfiski til síns heima og segir Bergþór að ráða þurfi í þeirra störf. „Störfum hefur einnig verið að fjölga hjá okkur.“ Störfin sem Nesfiskur auglýsti eru almenn fiskvinnslustörf. Á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum eru tæplega 400 manns.
VF-ljósmynd/HBB: Unnið við pökkun hjá Nesfiski.