Launin lækka hjá elsta hópnum - hækka hjá öðrum
Tímalaun hjá Vinnuskóla Grindavíkur fyrir sumarið hafa verið ákveðin. Launin hækka hjá 14, 15 og 16 ára ungmennum en lækka hjá þeim sem eru 17 ára. Gert er ráð fyrir sambærilegu fyrirkomulagi á vinnuskólanum og undanfarin ár, þ.e. að 14 ára vinni í 19 daga, 15 ára vinni í 27 daga og 16 og 17 ára vinni í 36 daga.
Athygli vekur að laun elsta hópsins lækka úr 1.379 kr. á tímann í fyrra niður í 1.292 kr. núna. Kristinn J. Reimarsson, Sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar, staðfestir í samtali við Víkurfréttir að þetta sé rétt.
Í fyrra var greitt 100% samkvæmt taxta eða launaflokki 115 en í kjarasamningi hafa sveitarfélög heimild til að greiða þessum árgangi 82% af launaflokki 115.
Samþykkt var að greiða 90% af þessum launaflokki o.þ.a.l. er örlítil lækkun á launum þessa árgangs á milli ára. Fyrir þá sem mæta 100% til vinnu þýðir þetta launalækkun um rúmar 21.700 kr. yfir sumarið miðað við 2012.
Tímalaun verða eftirfarandi:
17 ára: 1.292 kr. með orlofi (var 1.379 kr.)
16 ára: 718 kr. með orlofi (var 585 kr.)
15 ára: 574 kr. með orlofi (var 495 kr.)
14 ára: 502 kr. með orlofi (var 405 kr.)