Launakostnaður, rekstrakostnaður og mikil veikindi skýra hallarekstur Voga
Ársreikningur Sveitarfélagsins Voga er lagður fram til síðari umræðu og staðfestingar í bæjarstjórn sl. miðvikudag. Heildartekjur samstæðunnar voru 1.268 milljónir kr. Rekstrargjöld voru 1.346 milljónir kr., rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir voru - 78 milljónir kr. Að teknu tilliti til afskrifta, fjármagnstekna og fjármagnsgjalda er rekstrarniðurarstaðan neikvæð um 188 milljónir kr.
„Þegar rýnt er í ársreikning síðasta árs liggur það fyrir að grípa þarf til verulegra aðgerða til að koma rekstrinum á réttan kjöl. Athygli vekur að tekjur sveitarfélagsins eru litlu lægri en gert var ráð fyrir og reikna hefði mátt með verri niðurstöðu þar á því ári sem var að líða. Það er aukin launakostnaður, rekstrakostnaður og mikil veikindi sem að miklu leiti skýra þann mikla hallarekstur sem við okkur blasir. Laun sem hlutfall af rekstrarkostnaði er komin í 65% og hafa hækkað um 10% á fjórum árum og er orðið allt of hátt hlutfall. Þessu hlutfalli þarf að ná niður auk þess sem leita þarf leiða til að auka tekjur. Við munum ekki láta á okkur standa í þeirri vinnu,“ segir í bókun fulltrúa D-listans í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2020. Samþykkt með sjö atkvæðum.