Launagreiðslur Fríhafnarinnar yfir 100 milljónir á mánuði - framtíðin óviss
Störf um tvöhundruð Suðurnesjamanna eru í óvissu í kjölfar áhuga Isavia á að bjóða út rekstur Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Fríhöfnin greiddi rúmlega 1,2 milljarð í laun og starfsmannakostnað árið 2022 samkvæmt ársreikningi. Sú tala var mun hærri 2023 eftir fjórðungs fjölgun flugfarþega.
Velta Fríhafnarinnar var 12,3 milljarðar árið 2023 og hagnaður nam 685 milljónum króna. Þessar tölur hækkuðu verulega árið 2023 þegar farþegum fjölgaði um 26% en hafa þó ekki verið birtar.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í svari til Víkur-frétta að leiði það ferli sem nú er hafið til tilboða í rekstur fríhafnarverslunar á Keflavíkurflugvelli sem uppfylla væntingar, er fyrirhugað að gera samning við þann aðila sem verður með besta tilboðið. Verði það niðurstaðan er ljóst að starfsemi Fríhafnarinnar, dótturfélags Isavia, yrði lögð niður.
„Hjá Fríhöfninni starfar öflugur hópur fólks með ýmis konar sérhæfingu við störf í fríhafnarverslun á alþjóðaflugvelli. Það verður því vafalaust eftirsóttur starfskraftur fyrir rekstraraðila á vellinum.
Við hjá Isavia gerum síðan ráð fyrir að í vinnuréttarlegu tilliti gildi fyrir Fríhöfnina lög nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Það þýði að starfsfólk sem færist milli rekstraraðila haldi réttindum sínum samkvæmt núverandi ráðningarsamningum,“ segir Guðjón.
Hvenær má eiga von á næstu tíðindum varðandi þennan möguleika, s.s. útboðinu á rekstrinum?
Núna er verið að stíga næsta skrefið sem er að kanna hvort áhugasamir aðilar uppfylli það hæfi sem við teljum nauðsynlegt og hvort þeir séu tilbúnir til að skuldbinda sig til þátttöku í útboðinu. Að því loknu verður gengið frá endanlegum útboðsgögnum. Niðurstaða útboðs gæti síðan legið fyrir í lok þessa árs.
Fjölmennur vinnustaður á Suðurnesjum
Samkvæmt upplýsingum frá Fríhöfninni starfa þar nú 125 manns, meðal starfsaldur er rúm sex ár, nær allt fólk sem búsett er á Suðurnesjum. Í sumar er gert ráð fyrir að ráða um 70 manns.
Stór alþjóðleg fyrirtæki eru umsvifamikil í rekstri í flugstöðvum víða um heim. Líklegt er að þau séu í meirihluta þeirra sem sýnt hafi málinu áhuga. Ekki er ólíklegt að slíkir aðilar sjái hag í því að ná fram meiri hagkvæmni með færra starfsfólki og meiri sjálfsafgreiðslu. Það er í takt við það sem sjá má í flugstöðvum víða um heim.
Fríhöfnin hefur rekið verslanir í brottfarar- og komusal en einnig smærri verslunar fyrir tengifarþega sem ferðast utan Schengen-svæðisins. Stækkun á komuverslun Fríhafnarinnar hefur staðið yfir og er langt komin en hún mun þá verða nærri tvö þúsund fermetrar. Komuverslun á sér langa hefð á Keflavíkurflugvelli en þekkist nánast ekki í útlöndum. Íslenskir farþegar hafa verið dyggir viðskiptavinir alla tíð og þeir hafa keypt mikið af áfengi, tóbaki og snyrtivörum ásamt sælgæti, á lægra verði en gengur og gerist á landinu.
Tímamót við opnun Leifsstöðvar 1987
Saga Fríhafnarinnar er um margt merkileg og þar hefur margt Suðurnesjafólk starfað allt frá upphafsárunum í gömlu flugstöðinni til dagsins í dag eða í rúmlega sextíu ár.
Á heimsíðu Fríhafnarinnar má sjá áhugaverðar upplýsingar um verslunina og þar segir m.a.:
„Á árunum 1951-1957 var mikil aukning á flugi um Keflavíkurflugvöll, einkum þó árið 1956. Þann 23.maí 1958 voru samþykkt á Alþingi lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja áfengi, tóbak og fleira á Keflavíkurflugvelli til farþega í framhaldsflugi. Var fríhafnarverslunin opnuð í lítilli flugstöðvarbyggingu 15. september sama ár með það fyrir augum að afla gjaldeyristekna af millilandafarþegum sem ekki höfðu frekari viðdvöl hér á landi. Í ársbyrjun 1970 var svo samþykkt á Alþingi breyting á lögum um tollvörugeymslur, er heimilaði uppsetningu komuverslunar við fríhöfnina og tók sú verslun til starfa í maí sama ár. Í fyrstu var um að ræða mjög lítið fyrirtæki en það hefur vaxið mjög allt frá stofnun og hefur vöxturinn haldist í hendur við aukningu utanlandsferða Íslendinga.
Árið 1987 urðu tímamót í sögu Fríhafnarinnar er Leifsstöð var tekin í notkun. Glæsileg umgjörð var sköpuð í kring um stórbætta þjónustu og aukið vöruval. Ekki stóð á viðtökunum, því sala í Fríhöfninni jókst um meira en helming frá árinu áður.
Fríhöfnin hefur frá upphafi verið í eigu ríkisins, en á síðustu misserum hafa ýmsir þjónustuþættir færst yfir á hendur einkaaðila. Á árinu 1998 fjölgaði verslunum á brottfararsvæðinu þegar ný rými voru tekin í notkun. Fram að þeim tíma voru reknar tvær verslanir, hefðbundin fríhöfn og verslun með íslenskar vörur. Við bættust verslanir með kvenfatnað, íþróttavörur, herrafatnað, gleraugu, úr og skartgripi, og gjafavöru. Auk þess var þjónusta á sviði gjaldeyrisviðskipta aukin, meiriháttar breytingar gerðar á veitingarþjónustu og umsvif aukin.
Í upphafi árs 2005 varð breyting á rekstrarformi Fríhafnarinnar þar sem ákveðið var að stofna dótturfélag um verslunarrekstur FLE hf. Fríhafnarverslunin var þar með aðskilin rekstri FLE, bæði stjórnunar- og rekstrarlega.
Í lok pistils um söguna kemur fram að starfsmenn séu um 210 og hundrað fleiri yfir sumartímann. Miðað við fjölda starfsmanna sem Isavia gefur upp er ljóst að þeim hefur þá fækkað verulega því nú eru þeir 125 og gert er ráð fyrir um 70 manns aukalega í sumarstörf.