Laun á Suðurnesjum hafa hækkað mest á landsvísu
Laun á Suðurnesjum hafa að meðaltali hækkað um 22 prósent frá árinu 2010 og er það mesta hækkunin á landsvísu. Næst kemur höfuðborgarsvæðið með 17 prósent hækkun og þar á eftir Austurland með 16 prósent. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Greiningardeildar Íslandsbanka um Íbúðamarkaðinn. Frá árinu 2010 hafa laun á landsvísu hækkað um 10 til 22 prósent. Að sögn Guðbrands Einarssonar, formanns Verslunarmannafélags Suðurnesja, er ástæða hækkunarinnar á Suðurnesjum fyrst og fremst sú að margir á svæðinu fá greitt samkvæmt taxta. „Þeir hafa hækkað meira en almennar launabreytingar segja til um. Þeir sem hafa verið á lægstum launum hafa því fengið mestar hækkanir. Þá skiptir minnkað atvinnuleysi miklu máli,“ segir hann.
Guðbrandur segir að gera megi ráð fyrir því að sú þensla sem nú ríkir á Suðurnesjum muni hafa áhrif til framtíðar og að samkeppni um vinnuafl muni þrýsta launum upp en hversu mikið verði tíminn að leiða í ljós.
Laun á Suðurnesjum hafa hækkað um 29 prósent umfram íbúðaverð og er því talsvert auðveldara að kaupa íbúð á svæðinu nú en árið 2010, sé einungis horft til þróunar á launum og íbúðaverði.