Láti ekki lagatæknileg atriði letja sig
„Miðflokkurinn í Reykjanesbæ hefur frá upphafi setu í bæjarstjórn lagt áherslu á að fram fari íbúakosning um framtíð stóriðju í Helguvík. Flokkurinn fagnar því að formaður bæjarráðs hafi nú tekið af allan vafa í þessum efnum og lýst því yfir að íbúakosning muni fara fram“. Þetta kemur fram í bókun sem Gunnar Felix Rúnarsson, varabæjarfulltrúi Miðflokksins í Reykjanesbæ, lagði fram á síðasta fundi bæjarstjórnar.
Í bókuninni segir einnig að Miðflokkurinn fagni einnig hvatningu tæplega þrjú þúsund íbúa bæjarins til bæjaryfirvalda um að efna til bindandi íbúakosningu um stóriðju í Helguvík.
„Mikilvægt er að bæjarstjórn standi einhuga að málinu og láti ekki lagatæknileg atriði letja sig til að framfylgja vilja íbúanna. Réttur bæjaryfirvalda til að efna til íbúakosningar um einstök málefni bæjarins er ótvíræður og skipulagsvald bæjarins óskorað,“ segir Gunnar Felix jafnframt í bókuninni á fundinum.
Gunnar Felix Rúnarsson, varabæjarfulltrúi Miðflokksins í Reykjanesbæ.