Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Lára Magg ÍS komin á flot
    Lára Magg ÍS á botni Njarðvíkurhafnar í gærkvöldi.
  • Lára Magg ÍS komin á flot
Þriðjudagur 27. október 2015 kl. 09:41

Lára Magg ÍS komin á flot

Vel gekk að koma Láru Magg ÍS 86 á flot að nýju í Njarðvíkurhöfn í gærkvöldi. Báturinn hafði legið sokkinn í höfninni frá því í síðustu viku. Eftir að kafarar höfðu þétt rifur á skrokki bátsins voru dælur settar um borð og sjó dælt úr bátnum. Hann flaut upp stundarfjórðungi síðar.

Það var Köfunarþjónusta Sigurðar ehf. sem fékk það verkefni að koma bátnum upp af botni hafnarinnar en Sigurður og hans fólk hefur mikla reynslu af verkefnum eins og þessum.

Lára Magg ÍS sökk skyndilega í síðustu viku en skrokkur bátsins er illa farinn og fúinn. Sigurður Stefánsson kafari sagði í samtali við Víkurfréttir að undanfarna daga hafi verið unnið að því að þétta skrokk bátsins. Hann var svo réttur við skömmu fyrir lágflóð í gærkvöldi og öflugum dælum komið fyrir í lest bátsins. Eftir smá vandræði með rafmagn tókst að koma dælunum í gang og þá flaut Lára Magg ÍS upp eftir um stundarfjórðungs dælingu.

Ákveðið var að fá öflugan gámalyftara til að halda við bátinn á meðan dælingu stóð og það reyndist góð ákvörðun því þegar Lára Magg ÍS fór að fljóta stefndi allt í að hún færi á hliðina á nýjan leik. Gámalyftarinn náði að toga á móti og björgunaraðgerðin tókst fullkomlega og var dælingu lokið skömmu fyrir miðnætti.

Vakt var staðin við bátinn í nótt af ótta við að hann sykki aftur. Til stendur að taka Láru Magg ÍS á land í dag þar sem henni verður fargað.

Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi við Njarðvíkurhöfn í gærkvöldi.



Kafari frá Köfunarþjónustu Sigurðar ehf. á leiðinni ofan í lest bátsins.



Ýmislegt smálegt var tekið úr lestinni svo það færi ekki í dælurnar þegar dælt yrði úr bátnum.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024