Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Langþráð hvíld hjá björgunarsveitarfólki Þorbjarnar
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 27. desember 2023 kl. 17:41

Langþráð hvíld hjá björgunarsveitarfólki Þorbjarnar

Flugeldasölu sleppt í ár

„Jú, ég viðurkenni að það er komin þreyta í okkur eins og alla Grindvíkinga, það er leiðinlegt að geta ekki verið heima hjá sér,“ segir Helgi Einarsson, varformaður Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík en sveitin verður ekki með flugeldasölu í ár.

Segja má að mikið álag sé búið að vera á meðlimum björgunarsveitarinnar Þorbjarnar undanfarin ár en bara á seinni helmingi þessa árs hefur sveitin tekist á við stærstu gróðurelda sögunnar, rýmingu úr Grindavík, tvö eldgos auk annarra hefðbundinna verkefna. Þreyta var komin í mannskapinn fyrir jólin en sveitin mætir endurnærð til nýrra verkefna, hvenær sem þau munu koma upp.

„Álagið á okkur björgunarsveitarfólkið hefur jú verið mikið og undir það síðasta fyrir jólin var staðan einfaldlega orðin þannig að við áttum í erfiðleikum með manna vaktirnar og því var ákvörðun tekin með að gefa mannskapnum frí á meðan staðan var ekki alvarlegri. Þegar gaus vorum við svo kölluð út en sem betur fer fjaraði fljótt undan því eldgosi og við gátum hvílt okkur yfir jólahátíðina. Svona álag gerir samt ekkert nema þjappa mannskapnum betur saman, mórallinn hjá okkur er mjög góður og við verðum tilbúin þegar næsta útkall kemur. Við erum um 40 sem erum virk í starfinu en þar fyrir utan eru fjölmargir sem við getum leitað til. Það má alls ekki gleyma því að fjölmargar björgunarsveitir hafa komið að þessu, mest sveitir héðan af suðvesturhorninu en líka hvaðanæva af landinu. Við erum félögum okkar í öðrum sveitum mjög þakklát fyrir þeirra aðstoð.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Björgunarsveitirnar af Suðurnesjum, Suðurnes í Reykjanesbæ, Skyggnir í Vogum, Sigurvon í Sandgerði og Ægir í Garði, hafa mest komið björgunarsveit Þorbjarnar til aðstoðar en það má alls ekki gleyma öllum hinum sem hafa lagt hönd á plóg. Fljótlega eftir hamfarirnar var tekin ákvörðun um að sleppa flugeldasölu þetta árið og hvetur Helgi Grindvíkinga til að versla við björgunarsveitirnar í nágrenninu í staðinn. 

„Fyrir alla sem hyggja á flugeldakaup þá hvetjum við eindregið til þess að keyptir verða flugeldar hjá félögum okkar í öðrum björgunarsveitum á Suðurnesjum. Þessar sveitir hafa staðið þétt við bakið á okkur alla tíð og án þeirra getum við ekki verið. Eftirfarandi björgunarsveitir munu taka vel á móti ykkur á sölustöðum sínum sem opna þann 28. des n.k.

Álagið á seinni helmingi þessa árs hefur verið gífurlegt, við tókumst á við stærstu gróðurelda sögunnar á íslandi, tókum þátt í að rýma Grindavík í kjölfar jarðskjálfta og svo voru tvö eldgos í ofánlag, auk annarra hefðbundinna verkefna björgunarsveita. Við töldum ekki forsvaranlegt að leggja meiri vinnu á okkar félagsfólk og tímabært að hvíla mannskapinn fyrir komandi verkefni, hver svo sem þau kunna að verða. Að baki eru þúsundir vinnustunda í þessum verkefnum við erfiðar og skrítnar aðstæður og við erum hvíldinni fegin en ég veit að mannskapurinn verður klár þegar næsta kall kemur,“ sagði Helgi að lokum.

Þeir sem vilja styrkja Björgunarsveitina Þorbjörn með millifærslu geta lagt inn á þennan reikning: Bankanúmer 0143 26 8665, kt. 591283-0229. 

Helgi ásamt eiginkonu sinni, Þórdísi Jónu Guðjónsdóttur.