„Langar ekki að heyra af fleiri alvarlegum slysum“
-Engar fleiri framkvæmdir á Grindavíkurvegi og Reykjanesbraut í ár
Ekki stendur til að fara í neinar framkvæmdir eða lagfæringar á Grindavíkurvegi og Reykjanesbraut í ár að sögn G. Péturs Matthíasarsonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar við fyrirspurn Víkurfrétta.
Vegfarendur veganna tveggja hafa kvartað yfir holum, hjólförum og lélegri lýsingu en einungis tíu kílómetrar voru malbikaðir á vegum Suðurnesja í sumar, þar af voru sex þeirra á Reykjanesbraut.
„Ég er ótrúlega svekktur yfir því að sjá ekki minnst á Reykjanesbraut nema einu sinni í fjárlögum 2018. Við erum búin að atast í ráðamönnum síðustu daga en gjörsamlega fyrir lokuðum eyrum,“ segir Guðbergur Reynisson, einn af upphafsmönnum baráttuhópsins „Stopp hingað og ekki lengra“ sem berst fyrir því að Reykjanesbrautin verði tvöfölduð alla leið. „Ég á ótrúlega erfitt með að bíða og langar ekki að heyra af fleiri alvarlegum slysum á brautinni.“