Landsstjórnin: Bæði heimili og fyrirtæki þurfa nauðsynlega á skynsömum og raunsæum stjórnendum að halda
„Ég hefði helst kosið að stjórnin hefði starfað áfram fram að kosningum og gerðar hefðu verið nokkrar breytingar fyrir kosningar, s.s. á stjórn Seðlabankans,“ segir Oddný Harðardóttir bæjarstjóri í Garði um ástand mála í landsstjórninni.
„Ég hef miklar áhyggjur af þessu ástandi en vona úr því sem komið er að stofnað verði til þjóðstjórnar sem starfaði fram að kosningum.
Lykilatriði er að stjórnmálamenn eyði ekki kröftunum á þessum erfiðu tímum í að hreyta ónotum hvert í annað. Það þarf að safna saman góðu liði til að leysa verkefni sem koma okkur áleiðis upp úr kreppunni og allir þurfa að standa saman um það. Bæði heimili og fyrirtæki þurfa nauðsynlega á skynsömum og raunsæum stjórnendum að halda nú sem aldrei fyrr,“ segir Oddný að endingu.