Landsnet semji við landeigendur
Inga Sigrún Atladóttir, bæjarfulltrúi H-lista í Vogum, vill að Landsneti verði gert að semja við landeigendur um línulagnir í landi sveitarfélagsins áður en skipulagsyfirvöld taki ákvarðanir um flutningsleiðir.
Inga lagði fram bókun þessa efnis á síðasta bæjarstjórnarfundi í umræðu um aðalskipulagstillögu sveitarfélagsins. Í bókuninni er áréttað að á fjölmennum íbúafundi í Vogum hafi nær einróma verið samþykkt að rafmagnslínur, sem leggja þyrfti í gegnum land sveitarfélagsins vegna álversins í Helguvík, yrðu lagðar í jörð.
„Einnig vil ég taka undir álit umhverfisnefndar sveitarfélagsins sem að vel athuguðu máli hafnaði öllum loftlínum í landi sveitarfélagsins en lagði í staðinn til sæ- eða jarðstreng. Að lokum tel ég eðlilegt, og íbúum sveitarfélagsins til hagsbóta, að Landsneti verði gert að semja við landeigendur áður en skipulagsyfirvöld taka ákvarðanir um flutningsleiðir, hvort sem um er að ræða jarðstreng, loftlínur eða sæstreng,“ segir í bókuninni.
Landsnet hefur átt a.m.k. einn opinn fund með landeigendum, segir Róbert Ragnarson, bæjarstjóri Vogum, aðspurður um það hvort landeigendur væru hafðir með í ráðum.
Hann segir að í umræðunni um aðalskipulagstillöguna hafi ekki verið tekið á þessu máli þar sem ekki sé komin niðurstaða í viðræðum Suðurlinda við Landsnet.