Landsbankinn lokar í Njarðvík, Garði og Vogum
Landsbankinn hefur ákveðið að sameina útibú bankans í Reykjanesbæ og afgreiðslur hans í Garði og Vogum á einn stað frá og með 14. september. Sameinuð starfsemi verður í húsnæði bankans við Tjarnargötu 12 í Reykjanesbæ fyrst um sinn, en verður flutt í nýtt og glæsilegt húsnæði að Krossmóa 4a í hjarta bæjarins síðar á þessu ári. Við þann flutning verður afgreiðsla bankans að Grundarvegi 23 í Reykjanesbæ einnig sameinuð útibúinu. Áfram verður rekin afgreiðsla í Sandgerði.
Ekki verður um neinar uppsagnir að ræða þar sem þeim starfsmönnum sem nú starfa í Garði, Vogum og afgreiðslu í Reykjanesbæ verður boðið starf í útibúinu eða í afgreiðslunni í Sandgerði.
Óhjákvæmilegt er að við þetta verði nokkur breyting á starfsemi Landsbankans á Reykjanesi en mikil áhersla er lögð á að þjónusta við viðskiptavini skerðist eins lítið og unnt er. Starfsfólk bankans mun leggja sig fram um að halda þeim óþægindum sem skapast í lágmarki. Engar breytingar verða á reikningsnúmerum og ekki er þörf á endurnýjun greiðslukorta. Hraðbanki verður áfram í Garði og settur verður upp hraðbanki í Vogum.
Útibúið í Reykjanesbæ verður að breytingum loknum enn öflugra og hagkvæmara en það hefur verið og þjónusta þess mun eflast. Um 45 manns munu starfa í sameinuðu útibúi en að auki sinna um 20 starfsmenn í Reykjanesbæ bakvinnsluverkefnum fyrir bankann í heild og þar verður áfram stærsti vinnustaður Landsbankans utan Reykjavíkur. Landsbankinn rekur einnig útibú í Grindavík og afgreiðslu í Leifsstöð og samanlagt starfa tæplega 100 manns hjá bankanum á Reykjanesi þegar allt er talið.
Líkt og ítrekað hefur komið fram er rekstur Landsbankans til stöðugrar skoðunar með það fyrir augum að hagræða þar sem því verður við komið og leggja niður óhagkvæmar einingar ef þarf. Þessar aðgerðir fylgja þeirri stefnu en nauðsynlegt er að draga frekar úr kostnaði við reksturinn. Þá hefur tæknilausnum í bankaþjónustu fleygt gríðarlega fram, heimsóknum í útibú og afgreiðslur fer hratt fækkandi af þeim sökum og samgöngur verða æ betri. Fækkun afgreiðslustaða er því í senn eðlileg og óhjákvæmileg. Reiknað er með að Landsbankinn spari tæplega 150 milljónir króna á ári í rekstri sínum með þeim breytingum sem hér eru kynntar.
Fækkun útibúa og afgreiðslustaða banka nú er hluti af þróun sem staðið hefur um langa hríð. Frá árinu 1998 hefur afgreiðslustöðum Landsbankans t.a.m. fækkað úr 64 í 38 (fjölgaði tímabundið árið 2011 vegna samruna við Spkef) og verða eftir þessar breytingar 35. Útibúum Landsbankans og Spkef hefur samanlagt fækkað um tæplega þriðjung á síðustu tveimur árum, segir í tilkynningu frá bankanum.