Landsbankinn í Reykjanesbæ á einum stað
„Lokaferlið í sameiningu Landsbankans og Sparisjóðsins að opna á nýjum stað“, segir Einar Hannesson, útibússtjóri.
„Eigum við ekki að segja að þetta sé lokaferlið í sameiningunni. Dagurinn byrjar vel og starfsmenn eru ánægðir,“ sagði Einar Hannesson, útibússtjóri Landsbankans sem opnaði kl. 9 í morgun í Krossmóa 4 í Reykjanesbæ.
Á föstudag lokaði bankinn höfuðstöðvum sínum við Tjarnargötu í Keflavík og við Grundarveg í Njarðvík. Nú er öll starfsemin í Reykjanesbæ á einum stað í glæsilegum húsakynnum við Króssmóa 4 á gömlu bæjarmörkum Keflavíkur og Njarðvíkur. Húsnæði bankans er á tveimur hæðum, á um 700m2 á neðstu hæð og rúmlega 300m2 á 2. hæð. Starfsmenn í höfuðstöðvunum eru um sextíu en bankinn rekur einnig afgreiðslu í Sandgerði, í Grindavík og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Samtals starfa nærri 100 manns hjá bankanum á Suðurnesjum.
Meðal nýjunga er splunkunýr hraðbanki með ýmsum tækninýjungum þar sem m.a. er hægt að leggja inn peninga auk fleiri aðgerða sem ekki hafa þekkst áður.
Kolbeinn Sigurjónsson var fyrsti viðskiptavinurinn í morgun. Margir viðskiptavinir hafa litið við í morgun og þegið kaffi og kökur í morgunsárið.
Einar Hannesson tekur í hönd Kolbeins Sigþórssonar, fyrsta viðskiptavinarins í morgun.
Einar tók við blómvendi frá eigendum hússins, Urtusteini, félags í eigu Kaupfélags Suðurnesja. Skúli Skúlason framkvæmdastjóri Urtusteins og Ómar Valdimarsson, forstjóri Samkaupa óskuðu Einari til hamingju með daginn.
Fyrirtækjasviðið saman komið á nýja staðnum.
Allir brosandi á nýja staðnum.
Húsnæðið er skemmtilega innréttað og bjart.
Gjaldkerarnir, brosmildar og tilbúnar á nýjum stað.
Hluti starfsfólksins á síðasta vinnudeginum, síðasta föstudag, við Tjarnargötu í Keflavík. VF-myndir/pket og hilmarbragi.