Landsbankinn hættir við fulla lokun í Garði
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs samþykkti samhljóða ályktun vegna afgreiðslu Landsbankans í Garði á fundi sínum sem var að ljúka rétt í þessu. Í ályktuninni segir:
„Á fundi bæjarráðs og bæjarstjóra Sveitarfélagsins Garðs með fulltrúum Landsbankans kl. 8:00 í dag, vegna yfirlýsinga bankans frá í gær um að loka afgreiðslu Landsbankans í Garði, fór bæjarráð fram á að bankinn fresti boðuðum aðgerðum og bauð bankanum samstarf um farsæla lausn málsins.
Á fundinum gagnrýndi bæjarráð þá ákvörðun Landsbankans að ætla að loka afgreiðslu bankans í Garði og þau vinnubrögð sem bankinn viðhefur í því sambandi. Án fyrirvara og án samráðs við heimafólk í Garði verði afgreiðslu bankans lokað eftir aðeins nokkra daga. Bæjarráð fagnaði því hins vegar að starfsfólk afgreiðslu bankans í Garði muni halda sínum störfum áfram.
Fulltrúar Landsbankans voru minntir á að sveitarfélagið og samfélagið í Garði hefur staðið með bankanum og haldið tryggð við afgreiðslu bankans í Garði í þeim hremmingum sem gengið hafa yfir undan farin ár. Þá var minnt á yfirlýsingar bankastjóra Landsbankans um að bankinn ætli sér að standa með Suðurnesjamönnum og vera öflugur í fjármálaþjónustu á Suðurnesjum. Með boðuðum aðgerðum væri Landsbankinn að koma í bakið á viðskiptavinum sínum í Garði.
Síðar í dag komu þau viðbrögð frá Landsbankanum að afgreiðslu bankans í núverandi mynd verði hætt, en bankinn stefni að því að hafa afgreiðslu opna tvo daga í viku og að útfærsla þess muni liggja fyrir í næstu viku.
Bæjarstjórn lýsir ánægju með að Landsbankinn hafi tekið tillit til sjónarmiða bæjarráðs og þeirra athugasemda sem fram komu á fundi með fulltrúum bankans í morgun. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að óska eftir fundi fulltrúa Landsbankans með bæjarráði hið allra fyrsta til þess að fara nánar yfir hugmyndir bankans. Þessar fréttir eru skref í rétta átt og nauðsynlegt að ræða þær enn frekar við stjórnendur bankans. Jafnframt lýsir bæjarstjórn vilja sínum til samvinnu við Landsbankann um þjónustu bankans til framtíðar í Garði.
Sveitarfélagið Garður er samfélag tæplega 1.500 íbúa og fjölda atvinnufyrirtækja. Það er því nauðsynlegt að í svo stóru og öflugu sveitarfélagi sé til staðar staðbundin og öflug fjármálaþjónusta.
Sveitarfélagið Garður hefur átt áralöng farsæl viðskipti við Landsbankann og áður Sparisjóð Keflavíkur. Bæjarstjórn þakkar Landsbankanum gott samstarf og vonast til að svo verði áfram um komandi ár“.