Landsbankinn hættir þjónustuheimsóknum í Voga
– Vogar harma ákvörðun bankans
Landsbankinn hefur ákveðið að hætta þjónustuheimsóknum í Sveitarfélaginu Vogum, sem hafa verið vikulega eftir að bankinn lokaði afgreiðslu sinni í sveitarfélaginu um haustið 2012.
Á fundi bæjarráðs Voga í vikunni var lagt fram minnisblað bæjarstjóra um málið. Bæjarráð óskar eftir að teknar verði saman upplýsingar um umfang bankaviðskipta sveitarfélagsins við þá banka sem sveitarfélagið á viðskipti við.
Bæjarráð harmar þá ákvörðun Landsbankans að hætta þjónustuheimsóknum í sveitarfélaginu og hvetur bankann til að endurskoða ákvörðun sína, sér í lagi með tilliti til þeirra viðskiptavina bankans sem eiga erfitt um vik að sækja þjónustu bankans með öðrum hætti en í þjónustuheimsóknum.